Hluti nema í leikskólakennarafræðum ásamt Helga Arnarsyni sviðsstjóra Fræðslusviðs og Ingibjörgu Bryndísi Hilmarsdóttur leikskólafulltrúa.
Alls 18 starfsmenn Reykjanesbæjar stunda nú nám í leikskólakennarafræðum. Stór hluti nemenda hefur starfað lengi í leikskólum og er hópurinn mjög fjölbreyttur. Þar sem umræðan hefur lengi verið á þá leið að fjölga þurfi karlmönnum í stéttinni þá er ánægjulegt til þess að vita að tveir karlmenn eru í nemendahópnum.
Flestir nemendanna nýta sér samning við Reykjanesbæ sem gerir ráð fyrir að starfsmaður haldi óskertum launum í staðarlotum og vettvangsnámi sem stundað er í sveitarfélaginu, í ákveðin tíma á hverju skólaári. Að sögn Ingibjargar Bryndísar Hilmarsdóttur leikskólafulltrúa kom fram í spjalli við nokkra nemendur úr hópnum, að samningurinn hefði verið mikil hvati til að hefja nám. Einnig nefndu þeir að það öfluga og gróskumikið starf og nám sem fram fer í leikskólum Reykjanesbæ hefði verið þeim hvatning til að hefja nám.
Ánægjulegt er fyrir leikskóla Reykjanesbæjar að hafa þetta dugmikla fólk innan sinna raða og af því tilefni var nemendum boðið til fundar við Helga Arnarson sviðsstjóra Fræðslusviðs og Ingibjörgu Bryndísi Hilmarsdóttur leikskólafulltrúa á dögunum. Því miður komst ekki allur hópurinn en þessari mynd var smellt af við þetta tækifæri.