Við fögnum Degi leikskólans í dag!

Í dag, fimmtudaginn 6. febrúar, fögnum við Degi leikskólans, sem hefur verið haldinn hátíðlegur um árabil. Þessi dagur er tileinkaður því mikilvæga starfi sem fram fer í leikskólum landsins. Þann 6. febrúar 1950 stofnuðu frumkvöðlar leikskólakennara fyrstu samtök sín og lögðu þar með grunn að þeirri þróun sem hefur gert leikskólann að ómissandi fyrsta skólastiginu í íslensku menntakerfi. Í Reykjanesbæ starfa tólf leikskólar þar sem leikur og nám fléttast saman og hver einstaklingur er settur í forgrunn. Þar fer fram kraftmikið og framsækið starf þar sem fagfólk vinnur af alúð og metnaði að velferð barna.

„Í leikskólunum okkar er mikill mannauður sem setur velferð barna í fyrsta sæti. Þeir leggja grunninn að menntun barna og skapa umhverfi þar sem gleði, kærleikur og nám fara saman,“ segir Ingibjörg Bryndís Hilmarsdóttir, leikskólafulltrúi Reykjanesbæjar.

Í þessar stormasömu viku munu leikskólar í Reykjanesbæ halda upp á daginn með ýmsum hætti og fylgja kjörorði dagsins: „Við bjóðum góðan dag – alla daga.“

„Þessi fallega og hlýja kveðja segir mikið til um þann anda sem ríkir í starfinu sem fram fer í leikskólum landsins. Kveðjan ber með sér gleði og kærleika og að einstaklingar með fjölbreyttar og ólíkar þarfir séu velkomnir til leiks og náms í leikskólann,“ bætir Ingibjörg við.

Leikskólinn er fyrsta skólastigið og gegnir lykilhlutverki í þroska barna. Þar er lagður grunnur að félagslegri færni, sköpunargáfu, sjálfstrausti og samskiptahæfni sem börn taka með sér áfram í lífið. Í gegnum leik læra börn að takast á við áskoranir, vinna saman, tjá sig og þróa með sér sjálfstæði. Leikskólinn er því ekki aðeins vettvangur menntunar heldur einnig grundvöllur að öflugri framtíð fyrir samfélagið allt.

Reykjanesbær vill nota þetta tækifæri til að þakka starfsfólki leikskóla fyrir þeirra ómetanlega starf og óska þeim innilega til hamingju með daginn. Þeirra framlag skiptir sköpum fyrir framtíðina – ekki bara fyrir börnin sem sækja leikskólann, heldur fyrir samfélagið allt.