Í mars á þessu ári fengu nemendur í Háaleitisskóla einstakt tækifæri til að taka þátt í þróunarverkefninu Skapaðu morgundaginn, sem var unnið í samstarfi við Reykjanesbæ, Kadeco og hönnunarteymið ÞYKJÓ. Verkefnið var hluti af þemadögum skólans en á þeim var farið yfir nýtt rammaskipulag Ásbrúar með nemendum og síðan var þeim gefið tækifæri til að miðla sínum hugmyndum sem munu nýtast í áframhaldandi vinnu við deiliskipulagið. Áhersla var lögð á leik- og útisvæði framtíðar hverfisins.
„Útkoman var glæsileg, verkefni nemenda komu gríðarlega á óvart og vorum við ótrúlega þakklát fyrir þeirra framlag og þátttöku dagana sem þetta fór fram. Það var líka virkilega gaman að sjá ánægjuna og sköpunargleðina sem myndaðist hjá nemendum, það stendur klárlega upp úr,“ sagði Ragnar Steinarsson, deildarstjóri á eldra stigi í Háaleitisskóla, aðspurður um viðbrögð stjórnenda við verkefninu.
ÞYKJÓ, sem er hönnunarteymi með sérhæfingu í barnamenningarhönnun, var fengið til liðs við verkefnið. Teymið leggur áherslu á að vinna með börnum, fyrir börn, og hefur komið að svipuðum verkefnum víða. Með þessu samstarfi vildu Reykjanesbær og Kadeco gefa börnum hlutverk í mótun á eigin umhverfi og þetta er því skref í átt að því að gera Ásbrú að vistvænu, glaðlegu og aðlaðandi svæði þar sem öllum kynslóðum líður vel á.
Sem hluti af verkefninu voru lagðir fyrir spurningalistar þar sem börn tjáðu skoðanir sínar á leiksvæðum og hvernig þau eyddu tímanum sínum í nærumhverfinu. Yngstu nemendurnir fengu myndræna lista og kom í ljós að þeim fannst mest gaman að róla sér, renna og leika sér í litlum hellum eða leikhúsum. Nemendur á miðstigi nefndu boltavelli og hoppubelgi, en vildu bæta aðstöðuna og hafa fleiri upplýsta velli. Eldri nemendur nefndu einnig þörf fyrir betri samkomustaði fyrir unglinga.
Nemendur tóku einnig þátt í fjölbreyttum og skapandi smiðjum sem gáfu þeim tækifæri til að útfæra hugmyndir sínar á fjölmarga vegu. Þar á meðal var módelvinnustofa, þar sem börnin byggðu lítil líkön af leiksvæðum og útisvæðum með náttúrulegum efnivið. Í skýrslu um verkefnið kemur fram að það mátti greina að börnin vildu sjá meiri náttúru og fegurð, litadýrð, gróður, lífræna göngustíga og útilistaverk. Aðrar listasmiðjur voru meðal annars leikvallasmiðja, skuggaleikhússmiðja, klippimyndasmiðja og vegglistaverk innblásin af götulist.
Til að fagna lokum verkefnisins Skapaðu morgundaginn var haldin glæsileg uppskeruhátíð á Baun, barna- og ungmennahátíð Reykjanesbæjar í maí. Þar sýndu nemendur afrakstur sinn og fengu tækifæri til að kynna hugmyndir sínar um framtíðarskipulag Ásbrúar fyrir gestum og gangandi.
Þetta samstarfsverkefni hefur skapað vonir um að Ásbrú verði lifandi, skemmtilegt samfélag sem endurspeglar þarfir og óskir íbúa á öllum aldri!