112 er m.a. neyðarsími barnaverndar.
Á hverju ári þann 11. febrúar er 1-1-2 dagurinn haldinn um allt land. Dagurinn er samstarfsverkefni stofnana og félagasamtaka sem annast ýmsa neyðarþjónustu, almannavarna og barnavernda í landinu. 1-1-2 dagurinn var haldinn í fyrsta sinn árið 2005 en hann er einnig haldinn víða um Evrópu og er 1-1-2 númerið samræmt neyðarnúmer í Evrópu. Markmið dagsins er að kynna neyðarnúmerið og þá margvíslegu aðstoð sem almenningur hefur aðgang að í gegnum númerið.
Barnanúmerið einn, einn, tveir-1-1-2
Neyðarnúmerið 1-1-2 er ekki bara neyðarnúmer þegar slys verða eða eldur kviknar. Það er einnig neyðarnúmer barnaverndarnefnda landsins. 1-1-2 er BARNANÚMERIÐ á Íslandi.
Flest börn búa við góðar aðstæður og alast upp við öryggi, ást og alúð. Aðstæður barna geta þó verið mismunandi og búa sum börn við vanrækslu eða ofbeldi. Þá geta börnin sjálf stofnað eigin heilsu og þroska í hættu með ýmis konar áhættuhegðun eins og með neyslu vímuefna. Foreldrar bera sameiginlega ábyrgð á velferð barna sinna en ábyrgð samfélagsins er einnig mikilvæg. Með því að tilkynna til barnaverndar þegar áhyggjur eru af velferð barna þá getum við saman gætt barnanna í samfélaginu okkar og sett velferð þeirra í forgang. Þannig erum við sem samfélag að gangast við sameiginlegri ábyrgð á velferð þeirra.
Þekkir þú barn í vanda?
Ef þú þekkir barn sem býr við slíkar aðstæður sem nefndar eru hér að ofan eða býrð sjálf/sjálfur við slíkar aðstæður, þá getur þú hringt í Barnanúmerið 1-1-2. Öll símtöl í 1-1-2 eru meðhöndluð sem trúnaðarmál. Starfsmenn 1-1-2 meta í hvert sinn hvort ástæða sé til að hafa samband við barnaverndarnefndina á svæðinu þar sem barnið býr, en barnaverndarnefnd hefur það hlutverk að aðstoða börn og fjölskyldur í vanda.
Ef þú ert í vafa - hringdu!
Mikilvægt er að hringja þótt þú sért í vafa! Það er síðan á ábyrgð barnaverndarstarfsmanns að meta hvort ástæða sé til að grípa til aðgerða. Með því erum við sem samfélag að veita börnunum okkar félagslegt aðhald og standa saman um velferð þeirra og fjölskyldanna.
Sigríður Rósa Laufeyjardóttir,
Félagsráðgjafi í barnavernd Reykjanesbæjar