Þjóðhátíðardegi Íslendinga verður fagnað í Reykjanesbæ með hátíðardagskrá sem fram fer í skrúðgarðinum í Keflavík og skemmtidagskrá sem verður haldin í fjórum hverfum bæjarins.
Hátíðardagskrá
Dagskráin hefst með hátíðarguðsþjónustu í Keflavíkurkirkju sem að þessu sinni fer fram kl. 11:00. Að henni lokinni gengur skrúðganga undir stjórn skáta úr Heiðabúum og Lúðrasveitar Tónlistarskóla Reykjanesbæjar með hátíðarfánann í skrúðgarðinn í Keflavík þar sem hátíðardagskrá fer fram. Eygló Alexandersdóttir, fyrrum deildarstjóri hjá Reykjanesbæ og jógakennari, dregur þjóðfánann að húni og Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri, flytur henni þakkarorð. Við þetta tilefni syngur Karlakór Keflavíkur þjóðsönginn. Setningarræða dagsins er í höndum Halldóru Fríðu Þorvaldsdóttur, nýkjörins forseta bæjarstjórnar. Bryndís María Kjartansdóttir, nýstúdent og dúx Fjölbrautaskóla Suðurnesja, verður í hlutverki fjallkonu og flytur ættjarðarljóð. Ræðu dagsins flytur Albert Albertsson, verkfræðingur hjá HS Orku. Íbúar eru hvattir til að taka þátt í hátíðardagskránni sem einnig verður streymt í gegnum Facebook-síðu Víkurfrétta fyrir þá sem ekki eiga heimangengt.
Listamaður Reykjanesbæjar
Í lok hvers kjörtímabils útnefnir bæjarráð listamann Reykjanesbæjar og mun forseti bæjarstjórnar kunngjöra hver hlýtur nafnbótina að þessu sinni, við hátíðardagskrá í skrúðgarðinum. Listamaður Reykjanesbæjar fær styrk til að auðvelda viðkomandi að stunda list sína, viðurkenningarspjald og grip til minningar um atburðinn. Þá verður nafn listamannsins skráð á stall listaverks Erlings Jónssonar sem stendur í skrúðgarðinum en hann var fyrstur til að hljóta tilnefninguna árið 1991.
Skemmtidagskrá í hverfum
Í fyrra var sú leið farin að halda skemmtidagskrá fyrir yngstu kynslóðina á fjórum stöðum í bæjarfélaginu. Var það gert vegna fjöldatakmarkana en í ljós kom að útfærslan vakti mikla lukku meðal þátttakenda og aðstandenda. Af þeim sökum var sú ákvörðun tekin að láta reyna á sama fyrirkomulag í ár. Framkvæmdin er í höndum félagasamtaka en það eru skátafélagið Heiðabúar, Team DansKompaní, Barna- og Unglingaráð körfuknattleiksdeildar Njarðvíkur og Unglingaráð Fjörheima og Ungmennaráð Reykjanesbæjar sem sjá um dagskrána. Sambærileg dagskrá er á öllum stöðum frá klukkan 14 til 16 og því ástæðulaust að fara á milli staða. Meðal þess sem boðið verður upp á á hverjum stað eru hoppukastali, 17. júní ratleikur, fígúrur frá Leikfélagi Keflavíkur, andlitsmálning og ýmsir leikir og skemmtistöðvar. Staðsetningar eru við leikskólann Holt í Innri-Njarðvík, í skrúðgarðinum í Njarðvík, í skrúðgarðinum í Keflavík og við Hæfingarstöð Reykjanesbæjar á Ásbrú.
Kvöldskemmtun og aðrir viðburðir
Margt verður til skemmtunar í Ungmennagarðinum við 88 húsið fyrir ungmenni bæjarins. Boðið verður upp á pylsur og Öllavöllur, nýr körfuboltavöllur, verður formlega vígður. Þá koma fram m.a. Inspector Spacetime og Danskompaní ásamt fleirum.
Kaffihlaðborð verða á nokkrum stöðum, fjölskyldubingó í íþróttahúsi Njarðvíkurskóla auk þess sem ókeypis aðgangur er í Rokksafn Íslands og Duus Safnahús en þar eru glænýjar sumarsýningar nýopnaðar.
Gleðilega þjóðhátíð.