17. júní - þjóðhátíðardagskrá

17.júní – Þjóðhátíðardagskrá

Þjóðhátíðardegi Íslendinga verður fagnað í Reykjanesbæ með hátíðardagskrá og skemmtidagskrá sem fram fer í skrúðgarðinum í Keflavík. Hátíðin verður undir áhrifum 80 ára lýðveldisafmælis Íslands og 30 ára afmælis Reykjanesbæjar.

Hátíðardagskrá

Dagskráin hefst með hátíðarguðþjónustu í Keflavíkurkirkju klukkan 12:00. Að henni lokinni verður gengið fylktu liði með hátíðarfánann í skrúðgarðinn í Keflavík undir forystu skáta úr Heiðabúum og Lúðrasveitar Tónlistarskóla Reykjanesbæjar ásamt sérstökum gestum úr U.S. Naval Forces Europe and Africa Band sem eru í heimsókn hér á landi á vegum bandaríska sendiráðsins. Í skrúðgarðinum tekur við hátíðardagskrá þar sem Friðrik Georgsson, rafvélavirkjameistari dregur fánann að húni og Kjartan Már Kjartansson flytur honum þakkarorð. Við þetta tilefni syngur Karlakór Keflavíkur þjóðsönginn. Setningarræða dagsins er í höndum Guðnýjar Birnu Guðmundsdóttur, forseta bæjarstjórnar. Eva Margrét Falsdóttir, nýstúdent, verður í hlutverki fjallkonu og flytur ættjarðarljóð. Ræðu dagsins flytur Böðvar Jónsson, framkvæmdastjóri. Í tilefni lýðveldisafmælisins er landsmönnum boðið upp á lýðveldisbollakökur. Íbúar eru hvattir til að taka þátt í hátíðardagskránni.

Skemmtidagskrá

Margt verður til skemmtunar í skrúðgarðinum, allt frá kórsöng, sem sérstök áhersla er lögð á um allt land í tilefni af 80 ára lýðveldisafmælinu, upp í BMX-brós og allt þar á milli líkt og Bjartmar og Bergrisarnir, JóaPé og Króli, dans og Drottningin sem kunni allt nema … Þá verða á svæðinu hoppukastalar, hestateyming, andlitsmálning, fígúrur frá Leikfélagi Keflavíkur og margs konar skemmtistöðvar sem í fyrsta sinn eru í höndum flokksstjóra úr Vinnuskóla Reykjanesbæjar og verður spennandi að sjá hvað þau bjóða upp á. Þau ætla að sníða dagskrána að yngstu kynslóðinni á milli kl. 14-16 en að ungmennum frá kl. 16-18 þar sem m.a. fer fram vatnsblöðrustríð og vatnsrennibrautargleði. Skemmtidagskráin er öllum að kostnaðarlausu.

Aðrir viðburðir og strætó

Að venju verður úrval kaffihlaðborða á ýmsum stöðum, auk þess sem ókeypis aðgangur er í Rokksafn Íslands og Duus safnahús en þar eru nýopnaðar athyglisverðar sumarsýningar. Í Listasafni Reykjanesbæjar er sýning á verkum Erlings Jónssonar fyrrum bæjarlistamanns úr einkasafni fjölskyldu hans auk þess sem til sýnis eru fjölbreytt landslagsmálverk úr safneign. Í Bíósal er sýning á vegum Byggðasafns Reykjanesbæjar, Rís þú, unga Íslands merki, þar sem m.a. má sjá líklega stærsta fána landsins sem dreginn var að húni á Þingvöllum við stofnun lýðveldisins 17. júní 1944.

Innanbæjarstrætó gengur samkvæmt laugardagsáætlun og frítt verður í strætó.

Gleðilega þjóðhátíð.