3 sumarsýningar opnaðar í Duus safnahúsum

Laugardaginn 6. júní kl. 14.00 verða 3 nýjar sýningar opnaðar í Duus safnahúsum í Reykjanesbæ: 

HULDUFLEY, Skipa- og bátamyndir Kjarvals

Á sumarsýningu Listasafns Reykjanesbæjar, HULDUFLEY, er að finna úrval skipa- og bátamynda Jóhannesar Kjarvals sem Aðalsteinn Ingólfsson, sýningarstjóri, hefur fengið að láni frá ýmsum aðilum, söfnum og einstaklingum.

Það er einkar vel við hæfi að sýna þessi verk Kjarvals í Listasafni Reykjanesbæjar, í sjávarplássinu Keflavík, þar sem þau kallast á við bátalíkön völundarins Gríms Karlssonar í fremri sal.
Í texta Aðalsteins Ingólfssonar um sýninguna kemur fram að Kjarval málaði skip frá fyrstu tíð og  sjálfur sagði hann að það hefðu einmitt verið þau sem kveiktu löngun hans til að tjá sig í myndum. Þannig koma skip og bátar oftar fyrir í verkum hans en flest önnur mannanna verk. Þau tóku hins vegar margvíslegum breytingum á málaraferli hans og þróuðust frá því að vera eins konar skráning á útlitseinkennum togara og seglskipa yfir í stemmningsverk, síðar í táknmyndir um vegferð mannsins og loks jafnvel myndir með ívafi persónulegs uppgjörs við menn og málefni.

Nóbelskáldið Halldór Laxness segir t.a.m. eftirfarandi árið 1938 um skipamynd eftir Kjarval: „Þetta skip er aðeins hugsað skip, sál úr skipi eða svipur skips, ef vill, erindi þess í myndinni er ekki eftirlíking hlutar, heldur hitt: að tengja hugmyndir skoðarans við ákveðin efni, sem listamaðurinn vill tjá á leynilegan, undirvitaðan hátt. Raunverulegt skip vakir síst af öllu fyrir listamanninum.“

,,Klaustursaumur og Filmuprjón“
Textíll í höndum kvenna

Laugardaginn 6. júní kl. 14.00 opnar í Gryfju Duus safnahúsa ein af sumarsýningum Listasafns Reykjanesbæjar sem fengið hefur nafnið „Klaustursaumur og Filmuprjón.“ Sýningin er sett upp í tilefni af hundrað ára afmæli kosningaréttar kvenna. Á henni eru textílverk úr safneign Listasafns Reykjanesbæjar, sýnishorn af hannyrðum kvenna sem búsettar eru á svæðinu og hannyrðir í eigu Byggðasafns Reykjanesbæjar.

Nafn sýningarinnar vísar í breitt svið þeirra verka sem sjá má á sýningunni og má þar telja annars vegar aldagamla útsaumsaðferð og hins vegar nýlegt listaverk sem samanstendur af prjónuðum filmum. Þó flokka megi öll verk sýningarinnar sem textílverk fela þau í sér afar ólíkar nálganir, bæði hvað varðar hugmyndir, efnisval og úrvinnsluaðferðir,  enda byggja þau ýmist á handverki, myndlist eða hönnun. Oft skarast þó mörkin milli þessarra ólíku þátta og útkoman getur komið skemmtilega á óvart.

Sýningarstjóri er Inga Þórey Jóhannsdóttir. 


Sumarsýning Byggðasafns Reykjanesbæjar er: Konur í sögu bæjarins. Brot úr sagnaþáttum Mörtu Valgerðar Jónsdóttur.

Á sýningunni er gengið um þorpið Keflavík á fyrstu áratugum 20. aldar í fylgd Mörtu Valgerðar Jónsdóttur. Hún hafði þann hátt á að fara hús úr húsi og segja frá íbúunum eins og þeir komu henni fyrir sjónir í minningunni. Hún segir frá vinnu, áhugamálum, heilsu, útliti, persónuleika og atburðum í lífi þessa fólks. Afraksturinn er fjölbreyttur og sýnir þverskurð af samfélaginu. Marta skrifaði rúmlega eitt hundrað greinar í tímaritið Faxa á árunum 1945-1969.

Sýningin er sett upp í tilefni þess að nú er þess minnst að 100 ár eru liðin frá því að konur fengu kosningarétt á Íslandi. Þótt konur öðluðust þannig mikilvæg réttindi þá var langt í land að framlag þeirra til mótunar samfélagsins væri viðurkennt. Við leitum í smiðju sagnaþularins Mörtu Valgerðar Jónsdóttur til að skoða hvernig hún lýsir samferðakonum sínum í Keflavík í upphafi síðustu aldar þegar þéttbýlið var að festa rætur. Marta hafði einstakt lag á að lýsa samferðarfólki sínu með lifandi og fjölbreytilegum hætti. Skrif hennar gefa okkur ómetanlega innsýn í þessa áhugaverðu sögu og ekki síst á þátt kvenna í mótun hennar.

Getur vitnisburður Mörtu Valgerðar um lífið í þorpinu bætt einhverju við þekkingu okkar á sögunni? Getur það verið mikilvægt fyrir okkur að vita að sumar konur voru með fallegt hár og hafi jafnvel þrifið vel heima hjá sér? Eða er sú saga sem fjallar um valdabrölt, stríðsátök og um þá sem voru ríkir og frægir það eina sem skiptir máli að varðveita og þekkja til hlítar? Sýningarstjóri er Sigrún Ásta Jónsdóttir. 

Sýningarnar standa til 23. ágúst. Opið er í Duus safnahúsum frá kl. 12-17 alla daga. Aðgangur ókeypis.