Kjósendur þurfa að nota Íslykil eða rafrænt skilríki til að taka þátt í rafrænu íbúakosningunni sem nú stendur sem hæst í Reykjanesbæ. Boðið er upp á aðstoð við að nálgast Íslykil og þeir aðstoðaðir sem eiga rafrænt skilríki í Bókasafni Reykjanesbæjar á opnunartíma safnsins. Safnið er opið kl. 09:00 til 18:00 virka daga og kl. 11:00 til 17:00 laugardaga.
Rafræn íbúakosning í Reykjanesbæ um breytingar á deiliskipulagi í Helguvík stendur nú sem hæst. Síðdegis í gær þegar Þjóðskrá Íslands tók síðast stöðu á kjörsókn höfðu 525 manns kosið sem er 4,90% þeirra sem eru á kjörskrá. Eigi fólk í erfiðleikum með að átta sig á rafræna skilríkinu eða vantar aðstoð við að nálgast Íslykil aðstoðar starfsfólk Bókasafnsins kjósendur við það.
Að sögn Stefaníu Gunnarsdóttur forstöðumanns Reykjanesbæjar hafa á annan tug íbúa nýtt sér aðstoðina við að fá Íslykil. „Starfsfólk Bókasafnsins hefur bent fólki á að það geti nýtt sér Íslykilinn áfram, t.d. í samskiptum sínum við Tryggingastofnun,“ segir Stefanía en nokkrar neikvæðisraddir hafa heyrst varðandi kröfu um rafræn auðkenni í framkvæmd kosninganna. „Fleiri karlar en konur hafa nýtt sér aðstoðina og oft eru konurnar jákvæðari í garð rafrænna auðkenna. Hjón koma gjarnan saman.“
Stefanía telur að það geti haft áhrif að kosningin sé ekki bindandi, líkt og stjórnsýslulög kveða á um. „Ég held að það sé sérstaklega hjá þeim sem hafa ekki ákveðna skoðun í þessu máli og eru kannski ekki svo andvígir breytingunni á deiliskipulaginu. Ég tel að þeir séu minna að spá í að taka þátt í kosningunni.“
Taka má fram að rafræna íbúakosningin er mikilvæg prófun á samráði við íbúa og því er áríðandi að íbúar taki þátt. Aðeins með þátttöku er hægt að læra af ferlinu og finna leiðir til eflingar lýðræðis. Einar rafrænar kosningar hafa verið haldnar á Íslandi áður og var það í sveitarfélaginu Ölfuss sl. vor. Þar kom í ljós að konur voru duglegri að kjósa og það er reynsla Reykjavíkurborgar af kosningum í lýðræðisferlinu Betri hverfi.