Hanna Björg Vilhjálmsdóttir kennari við Borgarholtsskóla að flytja erindi sitt „Jafnréttisfræðsla - gæluverkefni eða grundvallaratriði? Þögnin er aldrei hlutlaus.“
Mikil ánægja var með haustráðstefnu grunnskólanna í Reykjanesbæ, Garði og Sandgerði sem fram fór í Hljómahöll í gær. Allmargir fyrirlesarar tóku þátt í ráðstefnunni auk þess sem ráðherra mennta- og menningarmálar og sviðsstjóri Fræðslusviðs Reykjanesbæjar fluttu erindi.
Til haustráðstefnu er stjórnendum og kennurum grunnskólanna í Reykjanesbæ, Garði og Sandgerði boðið á hverju hausti. Ráðstefnan er liður í endurmenntun starfsmannanna og fer fram með ýmsu sniði. Í ár var ákveðið að breyta um takt og hafa haustráðstefnu einn dag með áherslu á nemandann. Að sögn Sóleyjar Höllu Þórhallsdóttur grunnskólafulltrúa tókst ráðstefnan vel og var mikil ánægja með hana.
Meðal fyrirlesara voru Edda Óskarsdóttir nýdoktor við Háskóla Íslands, Hanna Björg Vilhjálmsdóttir kennari við Borgarholtsskóla og Kristín Valsdóttir deildarforseti listkennsludeildar Listaháskóla Íslands. Að hádegishléi loknu gátu ráðstefnugestir valið á milli þriggja erinda, um smiðju í skapandi skólastarfi, menningarmót: fljúgandi teppi og um mikilvæg þess að raddir barna heyrist í samfélaginu. Ráðstefnulok voru í höndum Önnu Steinssen tómstunda- og félagsmálafræðings, sem kann að laða fram bros og hlátur.