Upplýsingar frá Reykjanesbæ vegna áhrifa Neyðarstigs Almannavarna á íbúa Grindavíkur
Eins og margir einstaklingar, fyrirtæki, stofnanir, ríkisstjórn og sveitarfélög hefur Reykjanesbær veitt bæjaryfirvöldum og íbúum Grindavíkur margvíslega aðstoð auk þess sem fleiri mögulegar aðgerðir og verkefni eru í skoðun.
Húsnæði
Embætti byggingarfulltrúa Reykjanesbæjar er að kortleggja, í samvinnu við fasteignasala og verktaka á Suðurnesjum, mögulegt íbúðahúsnæði. Þeim upplýsingum verður svo komið til Innviðaráðuneytisins sem heldur miðlægt utan þessar upplýsingar.
Leik- og grunnskólar
Nú þegar hefur verið óskað eftir skólavist fyrir á annan tug barna úr Grindavík í grunnskólum Reykjanesbæjar. Þegar skólayfirvöld í Grindavík hafa náð sér á ný, og vitað er hvar starfsfólk og nemendur leik- og grunnskóla eru niðurkomin, munu þau taka forystu í málaflokknum. Við munum gera allt sem í okkar valdi stendur til að taka við fleiri nemendum ef óskað verður. Í einhverjum tilfellum er húsrúm til staðar en ekki starfsfólk og kemur til greina að nýta laust húsnæði ef starfsfólk úr Grindavík fylgir.
Fjöldahjálparstöð
Íþróttahúsið við Sunnubraut er í viðbragðsáætlunum skilgreint sem fjöldahjálparstöð í Reykjanesbæ. Þar er hægt að koma fyrir dísilrafstöð með skömmum fyrirvara ef rafmagnslaust verður. Almannavarnadeild Ríkislögreglustjóra ákveður hvenær ástæða er til að opna fjöldahjálparstöð og kallar til Rauða Krossinn sem kemur með rúm og annan nauðsynlegan búnað og sér um að veita áfallahjálp og margvíslega aðra þjónustu.
Þegar ákveðið var að rýma Grindavík sl. föstudagskvöld var um leið ákveðið að opna fjöldahjálparstöð á Sunnubrautinni en henni hefur nú verið lokað og búið að koma þeim sem eftir voru í annað húsnæði. Nokkrir tugir íbúa úr Grindavík hafa gist í fjöldahjálparstöðinni, sumir eina nótt en aðrir lengur. Þegar viðbúnaðarstig almannavarna er á neyðarstigi eins og nú er hefur það forgang fram yfir allt annað.
Velferðarþjónusta
Velferðarsvið Reykjanesbæjar hefur boðið fötluðum og öðrum skjólstæðingum félagsþjónustu Grindavíkur aðstoð og aðstöðu. Einnig er verið að skoða hvort félagsráðgjafar og starfsfólk á vegum Grindavíkurbæjar sem veitir margvíslega stuðningsþjónustu við aldraða og fatlaða geti fengið aðstöðu í Ráðhúsi Reykjanesbæjar og/eða á Nesvöllum. Þá býðst öldruðum að taka þátt í félagsstarfi á Nesvöllum ef starfsfólk fylgir með og að kaupa hádegismat í þjónustumiðstöðinni. Þá getur Skjólið, frístundaúrræði fatlaðra barna í 5. bekk og eldri, veitt starfsmönnum þessa hóps hjá Grindavíkurbæ aðstöðu fyrir sína starfsemi í Ungmennahúsinu Hafnargötu 88.
Samkomustaður og Vatnaveröld
Verið er að skoða staðsetningar fyrir Grindvíkinga að koma saman. Reykjanesbær hefur boðið fram Rokksafnið og eru Rauði Krossinn og Almannavarnir að skoða með hvernig því verður best háttað. Vatnaveröld hefur boðið Grindvíkingum frían aðgang sem þeir geta nýtt til að fara í sturtu og/eða laugina.