Rokksafn Íslands. Mynd: VF
Það verður ótal margt um að vera í söfnum, setrum og sýningum á Suðurnesjum um helgina (9. og 10. mars) þegar Safnahelgi verður haldin í 11.sinn.
Íbúar Suðurnesja eru hvattir til að taka rúntinn og endilega að bjóða með sér gestum. Athygli er vakin á því að ókeypis er inn á öll söfnin að þessu tilefni og um leið á þá dagskrá sem er í boði á hverjum stað nema annað sé tekið fram. Sveitarfélögin fimm á Suðurnesjum hafa unnið sameiginlega að undirbúningi dagskrárinnar og er verkefnið stutt af Uppbyggingarsjóði Suðurnesja. Sjá má alla dagskrána á. Með því að smella á þennan tengils opnast vefur Safnahelgi
Sérstakur opnunarviðburður verður í Hljómahöll á laugardaginn kl. 11:30. Þar verður útgáfu bókarinnar Frumkvöðlar og tónlistarrætur á Suðurnesjum fagnað. Kynnt verður átaksverkefni Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum um tónlist og tónlistarhefð. Flutt verður brot af því besta úr Söngvaskáldum á Suðurnesjum.
Síðan rekur hver viðburðurinn annan á hinum ýmsu stöðum í sveitarfélögunum á Suðurnesjum og eru gestir hvattir til að kynna sér dagskrána vel. Meðal þess sem er í boði í Reykjanesbæ er eftirfarandi:
Rokksafn Íslands
Opið klukkan 11 - 18
Rokksafn Íslands er safn um sögu popp- og rokktónlistar á Íslandi. Þar er saga tónlistar á Íslandi sögð allt frá árinu 1830 til dagsins í dag. Safnið frumsýnir um þessar mundir nýjan hluta safnsins sem unnin var í samstarfi við fyrirtækið Gagarín sem sérhæfir sig m.a. í gagnvirkum lausnum fyrir söfn. Í nýja hlutanum geta gestir skoðað sögu íslenskra tónlistarmanna og hljómsveita í gegnum gagnvirka plötuspilara. Sjón er sögu ríkari.
Yfir 16.000 munir í safngeymslu - stærsti slökkvibíll í heimi
Opið hús í Safnamiðstöð Reykjanesbæjar, Ramma, Innri-Njarðvík
Klukkan 12-17
Starfsfólk Byggðasafnsins tekur á móti gestum í safngeymslunum í Ramma í Innri-Njarðvík. Þar má sjá og fræðast um mikilvægt innra starf safnanna og þá góðu aðstöðu sem söfnin búa að í Reykjanesbæ hvað það varðar. Í eigu Byggðasafnsins eru um 16.000 munir, stórir og smáir, og nýlega tók safnið við stærsta slökkvibíl í heimi af Vellinum sem áður var í eigu Varnarliðsins. Þá gefst gestum kostur á að skoða listaverka- og ljósmyndageymslur. Í fórum safnsins er einnig að finna leikfangasafn Helgu Ingólfsdóttur og verður það gert sýnilegt gestum á Safnahelginni, ekki síst fyrir börnin.
Duus Safnahús
Klukkan 12-17
Í tengslum við þær 7 sýningar sem eru í gangi í húsunum verður boðið upp á ýmsa skemmtilega viðburði.
Bátafloti Gríms Karlssonar
Sunnudagur klukkan 13 og 16. Félag harmonikkuunnenda á Suðurnesjum leikur sjómannalög.
Pappírsbátagerð og ratleikur, laugardag og sunnudag.
Við munum tímana tvenna
Afmælissýning Byggðasafns Reykjanesbæjar. Á sýningunni er farið yfir 40 ára sögu safnsins og dregin upp mynd af fjölbreyttum verkefnum safnsins í þeim miklu breytingum sem orðið hafa á samfélaginu á þessum árum.
Sunnudagur klukkan 14:00: Leiðsögn sýningarstjóra Eiríks P. Jörundssonar.
Teikn. Einkasýning Guðjóns Ketilssonar
Guðjón er með allra markverðustu myndlistarmönnum þjóðarinnar og hefur haldið yfir þrjátíu einkasýningar og tekið þátt í samsýningum um allan heim.
Sunnudagur klukkan 15: Leiðsögn listamanns og Aðalsteins Ingólfssonar sýningarstjóra.
Fólk í kaupstað
Ljósmyndasýning á vegum Byggðasafns Reykjanesbæjar í tilefni af því að á þessu ári eru liðin 80 ár frá því að Ungmennafélagið setti á stofn Byggðasafn Keflavíkur og 75 ár liðin frá því að Keflavík varð kaupstaður. Á sýningunni gefur að líta fjölda ljósmynda af fólki í kaupstaðnum og hvernig bæjarfélagið hefur tekið breytingum á þessum árum.
Sunnudagur klukkan 15: Sýningarstjóri og ljósmyndari verða á staðnum og ræða við gesti og gangandi. Gott tækifæri til að koma til skila upplýsingum um myndirnar.
Ljós og tími
Listrænar ljósmyndir úr safneign Listasafns Reykjanesbæjar
Þyrping verður að þorpi
Fastasýning Byggðasafns Reykjanesbæjar, þar sem stiklað er á stóru í sögu svæðisins frá upphafi byggðar þar til þorp myndast í byrjun síðustu aldar.
Gestastofa Reykjanes jarðvangs
Sýning um myndun og mótun Reykjanesskagans, lífríki og náttúrufar. Reykjanes Geopark er á jarðvangaskrá UNESCO ásamt 119 öðrum svæðum í heiminum.