Ársreikningur Reykjanesbæjar fyrir árið 2018 var afgreiddur á fundi bæjarstjórnar í ráðhúsi Reykjanesbæjar nú síðdegis. Hér er ráðhúsið í sparibúningi í forsetaheimsókn í nýliðinnin viku.
Ársreikningur bæjarsjóðs og samstæðu Reykjanesbæjar fyrir árið 2018 var afgreiddur í bæjarstjórn nú síðdegis. Niðurstaða hans er sú besta sem sést hefur í 25 ára sögu sveitarfélagsins. Skuldaviðmið samstæðunnar lækkar vel undir lögboðið 150% viðmið og er nú 137,29%.
Rekstrartekjur sveitarfélagsins á árinu 2018 námu 23.187 milljónum króna samkvæmt samanteknum rekstrarreikningi fyrir a og b hluta. Rekstrartekjur a-hluta námu 15.662 milljónum króna.
Laun og launatengd gjöld sveitarfélagsins námu 7.980 milljónum króna en starfsmannafjöldi sveitarfélagsins nam að meðaltali 893 stöðugildum.
Rekstrarniðurstaða bæjarsjóðs fyrir afskriftir og fjármagnsliði var jákvæð um 3.524.2 milljónir króna og að teknu tilliti til þeirra liða er rekstrarniðurstaða jákvæð um 2.676.7 milljónir króna. Rekstrarniðurstaða samstæðu a og b hluta fyrir afskriftir og fjármagnsliði nam hins vegar 6.575.4 milljónum króna og að teknu tilliti til þeirra liða var niðurstaðan jákvæð um 2.373.5 milljónir króna.
Heildareignir sveitarfélagsins í samanteknum ársreikningi námu 66.515.4 milljónum króna og heildareignir bæjarsjóðs námu um 33.359.9 milljónum króna í árslok 2018.
Heildarskuldir og skuldbindingar í samanteknum ársreikningi námu um 48.619.4 milljónum króna og í ársreikningi bæjarsjóðs um 29.123.6 milljónir króna í árslok 2018.
Eigið fé í samanteknum ársreikningi nam um 17.896 milljón króna og eigið fé bæjarsjóðs nam um 4.236.4 milljón króna í árslok 2018.
Íbúafjöldi Reykjanesbæjar í lok árs 2018 var 18.930 og fjölgaði um 6,38% frá fyrra ári.