Atvinnutorg opnað í Reykjanesbæ

Atvinnutorg fyrir unga atvinnuleitendur á aldrinum 16-25 ára var opnað í Reykjanesbæ í dag. Verkefnið er samstarfsverkefni velferðarráðuneytisins, Vinnumálastofnunar og Reykjanesbæjar.

Markmið verkefnisins er að veita ungu fólki sem hvorki er á vinnumarkaði né í námi ráðgjöf og stuðning og finna úrræði við hæfi. Verkefnið markar tímamót þar sem boðin verða úrræði fyrir ungt fólk án tillits til réttinda þess innan atvinnuleysistryggingakerfisins. 
 

Hvað er Atvinnutorg?

  • Úrræði fyrir unga atvinnuleitendur á aldrinum 16-25 sem er án bótaréttar eða er um það bil að klára bótarétt.
  • Atvinnutorginu er ætlað að koma til móts við þann hóp atvinnuleitenda sem hefur hvað minnsta menntun og starfsreynslu og þarf meiri stuðning en ella
  • Á Atvinnutorgi munu þátttakendur fá einstaklingsmiðaða ráðgjöf og gerðar verða áætlanir með þarfir hans í huga.
  • Atvinnutorgið er staðsett í Hvammi, Suðurgötu 15 og verður opið frá kl. 8.00 – 16.00
  • Verkefnið er samvinnuverkefni Reykjanesbæjar, Velferðarráðuneytis og Vinnumálastofnunar.

Úrræði Atvinnutorgsins:

  • Bjóða upp á einstaklingsmiðaða ráðgjöf og fræðslu og skapar tækifæri fyrir ungt fólk til að öðlast starfsreynslu á vinnumarkaði
  • Bjóða upp á starfsþjálfun á vinnustöðum. Starfsþjálfunin felur í sér að þátttakendum verði boðið upp á starfsþjálfun í einn til þrjá mánuði, tvo til fimm daga vikunnar. Starfshlutfall og verkefni fara eftir aðstæðum hverju sinni og samkomulagi við þátttakanda
  • Bjóða upp á tímabundna ráðningu til sex mánaða í 50% - 100%  starfshlutfalli. Eingöngu er um tímabundnar stöður að ræða þar sem þátttakendur öðlast starfsreynslu sem ætti að geta stutt við frekari atvinnuþátttöku.
  • Starfshlutfall og verkefni fara eftir aðstæðum hverju sinni og samkomulagi við þátttakanda
  • Fyrirtæki og stofnanir sem taka þátt í verkefninu SKULDBINDA sig til að veita þátttakendum hagnýta reynslu og innsýn á þeim starfsvettvangi sem um ræðir. Vinnustaðurinn kemur sér upp TENGILIÐ fyrir umrædda einstaklinga sem sinnir jafnframt samskiptum við starfsmann í Atvinnutorginu

Hlutverk starfsmanna Atvinnutorgsins er:

  • að hvetja unga atvinnuleitendur til virkni
  • að mæta þörfum þátttakanda  þar sem hann er staddur og leita viðeigandi úrræða fyrir þátttakendur
  • að vinna einstaklingsáætlanir með þátttakendum sem samþættar ráðgjöf, fræðslu, starfsþjálfun og/eða starfi og vera stuðningur bæði fyrir viðkomandi einstakling og starfsstað
  • að veita stuðning í atvinnuleit
  • að  fylgja málum hvers og eins þátttakenda  eftir 

Starfsmenn Atvinnutorgsins vinna í nánu samstarfi við starfsmenn fjölskyldu-og félagsþjónustu Reykjanesbæjar og atvinnuráðgjafa Vinnumálastofnunar, samstarfsstofnanir og fyrirtæki.
Umsjón með Atvinnutorginu í Reykjanesbæ hefur stýrihópur sem í sitja 2 fulltrúar Reykjanesbæjar ásamt forstöðumanni Vinnumálastofnunar Suðurnesja.