Barnahátíð heldur áfram í dag

Frá setningu barnahátíðar.
Frá setningu barnahátíðar.

Dagskrá barnahátíðar heldur áfram í dag en fjölmargir tóku þátt í gær á sumardaginn fyrsta og var m.a. fullt út úr "dyrum" hjá skessunni og Fjólu vinkonu hennar og margir tóku þátt í víkingaleik í Víkingaheimum.

Alls söfnuðust 420 þúsund krónur í sumarkaffi á Nesvöllum en allur ágóði rennur í sjóð til að styrkja fjölskyldu í erfiðleikum.

Í morgun voru vígð með hátíðlegum hætti fuglahús sem sett hafa verið upp í hólmana við tjarnirnar í Innri Njarðvík en húsin eru afrakstur íbúafunda bæjarstjóra með grunnskólanemendum og útfærslan var í höndum Einstakra. Nemendur í leikskólunum Akri og Holti og Akurskóla tóku þátt í vígslunni með skrúðgöngu og söng.

Í dag kl. 15:00 fer fram skemmtun í Stapa þar sem grunnskólarnir sýna brot af því besta frá árshátíðum.

Það verður fjör í innileikjagarðinum á Ásbrú í dag kl. 17:30 - 19:00 en þar verða trúðar, boðið upp á andlitsmálun og tónlistarhjónin Heiða og Elvar taka lagið fyrir góða gesti.

Listahátíð barna og listasmiðja í Duushúsum er opin alla hátíðina sem og ljósmyndasýning barna á bókasafninu.


barnahátíð