Barnahátíð verður haldin í sjötta sinn í Reykjanesbæ dagana 20. - 23. apríl n.k. Markmið hátíðarinnar er að skapa foreldrum og börnum fjölbreytt tækifæri til frjórrar og gefandi samveru og stuðla þannig að fjölskylduvænum Reykjanesbæ. Hátíðin hefur ávallt verið sett í kringum sumardaginn fyrsta og var ekki breytt út af venjunni í þetta sinn þó nú kæmi páskahelgin inn í tímabilið. Viðburðir verða því aðeins færri en venjulega en þó nóg um að vera fyrir listelska krakka því Listahátíð barna er hryggjarstykkið í barnahátíðinni.
Hátíðin var sett í Duushúsum í morgun kl. 10.30 um leið og Listahátíð barna var opnuð og í tengslum við hana verða listasmiðjur á þremur stöðum, Bíósal Duushúsa, Svarta pakkhúsinu og í Frumleikhúsinu. Listsýning leikskólabarna "Himingeimurinn" er staðsett í Duushúsum og stendur til 8. maí og listsýning grunnskólabarna er staðsett á þremur stöðum í bænum, í Kjarna fyrir framan bókasafnið, í Krossmóa og í Kaffitár undir heitinu "Listaverk í leiðinni". Um 2.000 börn taka þátt í listahátíðinni í ár.
Nánari upplýsingar um dagskrá barnahátíðarinnar má sjá á vefsíðunni barnahatid.is Einnig má fylgjast með á Facebook síðu Reykjanesbæjar þar sem m.a. birtar verða myndir frá viðburðum.