Vistlegt og vinalegt viðtalsherbergi barnaverndar.
Barnavernd Reykjanesbæjar telja mikilvægt að unnið sé í samræmi við Barnasáttmála Sameinuðu Þjóðanna, við vinnslu barnaverndarmála, en þar er lögð rík áhersla á að börn eigi rétt á að alast upp í friði, öryggi og við góðar uppeldisaðstæður ásamt verndar gegn ofbeldi og/eða vanrækslu. Auk þess að aðstoða börn við að koma sjónarmiðum sínum á framfæri og að tekið sé tillit til skoðana þeirra í samræmi við aldur þeirra og þroska. Barnavernd Reykjanesbæjar leggur því áherslu á að vinna að því að bæta aðstæður barna sem búa við óviðeigandi uppeldisaðstæður með því að veita foreldrum og börnum þeirra stuðning í samræmi við þarfir þeirra hverju sinni. Barnavernd leggur ennfremur áherslu á að aðstoða börn ,sem verða fyrir ofbeldi eða sýna af sér áhættuhegðun, og fjölskyldur þeirra. Barnavernd leggur áherslu á samstarf og þátttöku foreldra og barna við vinnslu barnaverndarmála því þannig þjónum við best fjölskyldum sem þarfnast aðstoðar eða aðkomu barnaverndar.
Vinnulag barnaverndar
Barnavernd tekur við barnaverndartilkynningum frá mismunandi aðilum eins og foreldrum, ættingjum nágrönnum, skóla/leikskóla, lögreglu og fleiri aðilum. Þegar tilkynning berst þá er hún lögð fyrir fund hjá barnavernd þar sem tekin er afstaða til þess hvort hefja eigi könnun máls eða ekki. Ef mál eru könnuð þá eru foreldrar boðaðir í viðtal til starfsmanna barnaverndar þar sem gerð er áætlun um könnun máls og inn í þeirri áætlun er til að mynda að ræða við börnin, fá upplýsingar úr skóla/leikskóla og að fara á heimili barns. Markmið með áætlun um könnun máls er að leggja grunn að samstarfi við könnun og vinnslu málsins. Að lokinni könnun er gerð greinargerð í málinu og afstaða er tekin til á fundi hvort að loka eigi málinu eða veita stuðning á vegum barnaverndar.
Á árinu 2013 bárust 640 tilkynningar til barnaverndar þar sem tilkynnt var um 345 börn og tvær tilkynningar bárust vegna þungaðra kvenna. Ákveðið var að hefja ekki könnun hjá 59 börnum og þungaðra kvenna en í málum þar sem ekki er hafin könnun er foreldrum sent bréf til að láta þau vita að tilkynning hafi borist.
Á árinu 2013 unnu starfsmenn barnaverndar í barnaverndarmálum 387 barna þar sem veittur var margvíslegur stuðningur. Lögð er áhersla á að veita þjónustu í nærumhverfi barns og má þar nefna stuðningsfjölskyldu, ráðgjöf og stuðning inn á heimili, persónulegan ráðgjafa fyrir barn, Baklandið sem er eftirskólaúrræði fyrir börn sem eiga við félagslegan vanda, sálfræðiviðtöl fyrir foreldra/börn og fjárhagsstuðning til að greiða ýmsan kostnað sem tengist börnum. Starfsmenn barnaverndar gera áætlun um meðferð máls með foreldrum þar sem markmið með áætluninni kemur fram ásamt þeim stuðningsúrræðum sem Þykja best til þess fallinn að ná fram breytingum á aðstæðum fjölskyldunnar. Áætlunin er tímasett og staðan er metin í lokin og afstaða tekin til þess hvort að þörf sé á að gera nýja áætlun eða að málinu verði lokað.
Starfsmenn barnaverndar Reykjanesbæjar leggja áherslu á að ræða við börn við vinnslu barnaverndarmála því þeir líta svo á að það séu sjálfsögð mannréttindi að leitað sé efir sjónarmiðum barna þegar verið er að fjalla um líf þeirra og aðstæður. Auk þess þarf að sjá til þess að þátttaka þeirra við ákvörðunartöku í máli þeirra sé tryggð. Það er vandasamt að ræða við börn þar sem ekki er hægt að ræða við þau á sama hátt og þegar fullorðnir eiga í hlut. Starfsmenn barnaverndar Reykjanesbæjar ákváðu því að útbúa vistlegt herbergi fyrir börn. Þau börn sem hafa komið í viðtalsherbergið eru almennt ánægð með það og það hefur gefist vel að vinna þar með börnin.
Almennt eru barnaverndarmál unnin í samvinnu við foreldra og börn en þegar ekki næst samvinna við foreldra, eða börn sem náð hafa 15 ára aldri, eru málin lögð fyrir barnaverndarnefnd Reykjanesbæjar. Barnavernd Reykjanesbæja vill þakka þeim fjölmörgu foreldrum og börnum sem hafa notið þjónustu barnaverndar fyrir gott samstarf. Það er ávallt gefandi að sjá þau fjölmörgu börn, sem barnavernd hefur komið að, vaxa og dafna í samfélaginu okkar.
María Gunnarsdóttir
Forstöðumaður barnaverndar
Þórdís Elín Kristinsdóttir
Félagsráðgjafi barnaverndar Reykjanesbæjar