Blöðrur á Ljósanótt

Eigum við að sleppa blöðrum eða sleppa því að sleppa blöðrum?
Eigum við að sleppa blöðrum eða sleppa því að sleppa blöðrum?

Ljósanefnd er framkvæmdaráð Ljósanætur og skipað starfsmönnum Reykjanesbæjar frá öllum sviðum.  Þessi  nefnd vinnur í umboði hinna eiginlegu nefnda og ráða Reykjanesbæjar s.s. menningarráðs, fræðsluráðs o.fl.  og vinnur eftir þeim ákvörðunum sem þar eru teknar ásamt því að vinna sem mest og best úr þeim tillögum sem koma frá hinum almenna bæjarbúa.  Ákvörðunin um að halda blöðrunum við setningarathöfnina var t.d. tekin eftir miklar vangaveltur og umhugsun.  Haldinn var íbúafundur um Ljósanótt í Duushúsum 11. febrúar þar sem þetta atriði var rætt ásamt fleiri dagskráratriðum og m.a. var óskað eftir tillögum að nýjum leiðum.  Komu þar fram skiptar skoðanir. Starfsmenn og nefndarfulltrúar leituðu líka víða ráða s.s. hjá aðilum og stofnunum sem hafa heilbrigðis- umhverfismál sem sérsvið og veltu málinu vel fyrir sér. Blöðrurnar voru m.a. á dagskrá á fundi menningaráðs a.m.k. tvisvar og 12. mars s.l. bókaði ráðið eftirfarandi:

Bókanir

"Að gefnu tilefni vill menningarráð koma því á framfæri að síðustu ár hafa blöðrur sem hafa verið notaðar á Ljósanótt verið úr hreinu latexi, náttúrulegri afurð gúmmítrjáa sem brotna upp í náttúrunni (earth friendly ballons, bio-degradable).  Einnig eru böndin sem notuð hafa verið til að binda þær umhverfisvæn.“
Fræðsluráð ræddi einnig blöðrumálið og kallaði eftir hugmyndum frá foreldrafélögum leik- og grunnskóla um aðrar leiðir en blöðrusleppingar og barst ein hugmynd frá einum leikskóla sjá eftirfarandi bókun frá 29. maí s.l. „Foreldrafélag leikskólans Holts leggur til að gróðursett verði tré á ákveðnum stað, í tilefni af setningu Ljósanætur.”

Mismunandi sjónarhorn

Blöðrumálið var því skoðað frá mörgum sjónarhornum og að lokum ákveðið í lok maí að halda setningarathöfninni óbreyttri í ár.  Í sambandi við tillöguna um gróðursetninguna þá skal það upplýst að umhverfisvið Reykjanesbæjar hefur gróðursett fjölda trjáa í ár, nánar tiltekið 5.300 stykki og m.a. með aðstoð Vigdísar Finnbogadóttur í Paradísarlundi í vor þannig að ef umræðan snerist um kolefnisjöfnun værum við sennilega réttu megin á kvarðanum þrátt fyrir blöðrurnar á Ljósanótt.  Ef  við hins vegar bættum við akstri fornbíla niður Hafnargötuna og flugeldasýningunni sjálfri færi málið vandast.

Endurskoðun

Undirrituð skrifar þessa grein ekki til varnar dagskráratriðinu sjálfu, blöðrusleppingunni, heldur vil ég með þessum orðum koma því á framfæri að þessi ákvörðun var tekin eftir mikla  umhugsun og umræður margra aðila og verður að sjálfsögðu endurskoðuð fyrir næsta ár eins og önnur atriði Ljósanætur. Við auglýsum hér með eftir hugmyndum frá bæjarbúum um ný og betri dagskráratriði á Ljósanótt þ.á.m. hugmyndum um breytta setningarathöfn og hvetjum um leið alla til að mæta við setninguna 3. september þar sem þetta gæti orðið í síðasta sinn sem hægt verður að sjá þetta grípandi sjónarspil.

Valgerður Guðmundsdóttir menningarfulltrúi Reykjanesbæjar