Frá lestrarstund í Njarðvíkurskóla.
Í vikunni 10. -14. nóvember verður læsi og lestri gert hátt undir höfði í leikskólum Reykjanesbæjar. Tilefnið er Dagur íslenskrar tungu þann 16. nóvember n.k. og áherslur Reykjanesbæjar á læsi og lestur í leikskólum. Margt skemmtilegt og fróðlegt verður gert og má þar helst nefna að lestrarvinir koma úr grunnskólum bæjarins og lesa fyrir börnin, elstu börnunum er boðið í heimsókn á Bókasafn Reykjanesbæjar og þau fá gefins bókamerki. Orðaveggir verða búnir til og foreldrar, ömmur og afar koma og lesa fyrir áhugasama hlustendur. Málshættir og orðatiltæki verða skoðuð og Dagbjörg Ásgeirsdóttir barnabókahöfundur kemur í heimsókn og les upp úr bókum sínum.
Við hvetjum foreldra til að lesa daglega fyrir börn sín og leggja þar með sitt á vogarskálar við að búa til bókaorma framtíðarinnar og undirbúa börnin sín fyrir hefðbundið lestrarnám. Rannsóknir sýna að börnum gengur betur í námi ef lesið er fyrir þau daglega frá unga aldri. Lestur myndabóka stuðlar að auknum orðaforða barna, athygli og námsáhuga. Hann styður einnig við skilning á merkingu ritmáls og uppbyggingu frásagnar og tungumáls.