Guðný Kristín tekur hér við verðlaununum úr höndum Oddfríðar Steinunnar formanns Upplýsingar.
Guðný Kristín Bjarnadóttir verkefnastjóri á Bókasafni Reykjanesbæjar tók á móti Hvatningaverðlaunum Upplýsingar 2019 í húsakynnum safnsins í morgun. Er þetta í fyrsta sinn sem verðlaunin eru veitt, en Upplýsing er fagfélag á sviði bókasafns- og upplýsingafræða. Verðlaunin fékk Bókasafnið fyrir verkefnið „Saumað fyrir umhverfið“ sem gengur út á að sauma fjölnota taupoka í Pokastöð sem starfrækt er í safninu. Í umsögn dómnefndar segir að í verkefninu séu góð tengsl við bækur og umhverfið og að það flokkist sem nýbreytniverkefni.
Það voru Oddfríður Steinunn Helgadóttir formaður Upplýsingar og Barbara Guðnadóttir varaformaður sem gerðu sér ferð suður með sjó til þess að afhenda verðlaunin og kynna sér verkefnið. Útnefninguna fékk Bókasafn Reykjanesbæjar á Bókasafnsdaginn sem haldinn er hátíðlegur 8. september ár hvert. Verðlaunagripurinn er Lóa eftir Hafþór Ragnar Þórhallsson.
Saumað fyrir umhverfið
Um verkefnið Saumað fyrir umhverfið segir í texta tilnefningarinnar: Það er hugsað sem umhverfisátak til að vekja fólk til umhugsunar um ofnotkun plasts og til að draga úr notkun þess, til dæmis plastpoka undir bækur til útlána á safninu.
Í verkefninu eru góð tengsl við bækurnar og umhverfið. Verkefnið gefur hugmynd um kolefnisspori til framtíðar og getur verið öðrum bókasöfnum fyrirmynd til eftirbreytni og er ekki flókið að innleiða. Verkefnið er viðeigandi innlegg bókasafna inn í plastlausan september og hjálpar til við að styðja við bann gegn plastpokanotkun.
Verkefnið getur flokkast sem nýbreytniverkefni og telst ekki hluti af daglegu starfi viðeigandi starfsstaðar, eins og segir í vinnureglum dómnefndar. Verkefnið er hvatning til eftirbreytni og góðra verka bæði innan og utan viðkomandi starfsstaðar. Verkefnið getur þróast með stöðugt nýjum þátttakendum inn á bókasöfnin sem geta lagt sitt af mörkum til betri framtíðar. Verkefnið getur hvort sem er átt við á skólabókasöfnum eins og almenningssöfnum og á opinberum vettvangi.
Í tilnefningunni er nefndur umsjónarmaður verkefnisins í bókasafni Reykjanesbæjar, Guðný Kristín Bjarnadóttir. Bókasafnið og umsjónarmenn verkefnisins hljóta því veglegan verðlaunagrip, Lóu, eftir Hafþór Ragnar Þórhallsson
Í dómnefnd voru Margrét Björnsdóttir af hálfu undirbúningshóps Bókasafnsdagsins, Margrét Sigurgeirsdóttir af hálfu Samtaka forstöðumanna almenningsbókasafna og Þórunn Erla Sighvats af hálfu stjórnar Upplýsingar.
Um Hvatningarverðlaun Upplýsingar
- Veita starfsfólki bókasafna jákvæða hvatningu í starfi
- Vekja athygli á því gróskumikla starfi sem fram fer á vegum bókasafna
- Stuðla að aukinni nýbreytni og þróunarstarfi
Dómnefnd Hvatningarverðlauna Upplýsingar árið 2019 stóð frammi fyrir erfiðu verkefni. Það var úr vöndu að velja þar sem sex verkefni voru tilnefnd. Dómnefndin fór eftir vinnureglum og hafði til hliðsjónar ofangreind markmið með verðlaununum. Til þess að gefa hugmynd um fjölbreytnina í tilnefningunum komu meðal annars fram þessar lýsingar í tilnefndum verkefnum:
- að auðga starfsemi
- að laða fram styrkleika og stolt og gleði einstaklinganna
- finna upp á skemmtilegum uppákomum til þess að fá börnin inn í bókasafnið
- hafa ókeypis lestrarhvetjandi námskeið, hafa umhverfisátak, blása til stórátaks og meira samstarf