Börnin að borðinu er tilnefnt til Hönnunarverðlauna Íslands 2024

Í mars á þessu ári fengu nemendur í Háaleitisskóla einstakt tækifæri til að taka þátt í þróunarverkefninu Skapaðu morgundaginn, sem að Reykjanesbæ og Kadeco unnu í samstarfi með frábæra hönnunarteyminu ÞYKJÓ. Verkefnið hefur nú verið tilnefnt til Hönnunarverðlauna Íslands 2024 undir heitinu Börnin að borðinu.

Verkefnið var hluti af þemadögum skólans en á þeim var farið yfir nýtt rammaskipulag Ásbrúar með nemendum og síðan var þeim gefið tækifæri til að miðla sínum hugmyndum, á skapandi hátt, sem munu nýtast í áframhaldandi vinnu við deiliskipulagið. Áhersla var lögð á leik- og útisvæði framtíðar hverfisins. Þetta verkefni samræmist áformum Reykjanesbæjar um innleiðingu Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna þvert á alla stjórnsýsluna í gegnum verkefnið Barnvænt sveitarfélag í samstarfi við UNICEF. Með þessu tryggir Reykjanesbær að tekið sé mið af réttindum og sjónarmiðum barna, og þátttaka þeirra sé virk í stefnumótandi verkefnum sveitarfélagsins. Hægt er að lesa meira um verkefnið Skapaðu morgundaginn hér.

Í rökstuðningi dómnefndar Hönnunarverðlaunanna kemur fram að verkefnið veiti börnum raunverulegt tækifæri til að hafa áhrif á sitt nærumhverfi. Þau eru hvött til að nýta sköpunarkraft sinn og leggja fram hugmyndir um samfélagslega mikilvæga þætti. „Ímyndunarafli og sköpunarkrafti barna og ungmenna eru fá takmörk sett — ef þau fá á annað borð tækifæri til þess að sleppa þessum kröftum lausum. Með verkefninu Börnin að borðinu er þeim gefin rödd og mikilvægasta fólkið þannig virkjað til alvöru áhrifa í gegnum það sem þau eru sérfræðingar í — sköpun og leik.“ Dómnefndin lýsir einnig ánægju með fordæmið sem verkefnið setur þar sem hönnun er notuð til að efla samtal og samvinnu í samfélaginu, þar á meðal milli bæjarfélags og barna um framtíðarsýn og þróun umhverfisins.

Dómnefnd tilnefnir þrjú verkefni í hverjum flokki og af þeim hlýtur einn sigurvegari í hverjum flokki Hönnunarverðlaun Íslands 2024. Verðlaunaafhending fer fram í Grósku þann 7. nóvember næstkomandi.

Reykjanesbær vill óska ÞYKJÓ og öllum þeim sem komu að verkefninu innilega til hamingju og þakka fyrir samstarfið á þessu metnaðarfulla og skapandi verkefni!