Næstkomandi laugardag þann 26. febrúar kl. 11 - 13 stendur fjölskyldu-og félagssvið Reykjanesbæjar fyrir Degi um málefni fjölskyldunnar í Íþróttaakademíunni.
Markmiðið með þessum degi er að vekja athygli á málefnum fjölskyldunnar, mikilvægum tengslum fjölskyldulífs og atvinnulífs, ekki hvað síst á grundvelli jafnréttis kynjanna. Fjölskyldan og vinnumarkaðurinn hafa löngum verið ákaflega kynjaskiptir, skipting sem endurspeglar allt í senn, hefðir og venjur samfélagsins á hverjum tíma, áhugasvið kynjanna, menntunartækifæri og starfsreynslu. Bæði kyn eiga að hafa svigrúm til að nýta hæfileika sína á vinnumarkaði , jafnframt því að njóta fjölskyldu-og einkalífs. Atvinnurekendur þurfa að gera starfsfólki sínu mögulegt að samræma starfsskyldur sínar og ábyrgð gagnvart börnum sínum og öðrum aðstandendum. Jafnrétti og jöfn staða er hagur beggja kynja.
Með þetta að leiðarljósi var fjölskyldustefna Reykjanesbæjar samþykkt árið 2003. Í samræmi við þá stefnu er stofnunum bæjarins og/eða fyrirtækjum á almennum markaði, sem þykja skara framúr varðandi jákvætt viðmót til fjölskyldunnar og hafa sett sér fjölskyldustefnu, veitt viðurkenning þar að lútandi á Degi um málefni fjölskyldunnar.
Í ár er þessi viðurkenning veitt í níunda sinn. Samhliða er dagforeldrum sem starfað hafa samfellt í 10 ár veittar viðurkenningar fyrir starf sitt, en daggæsla barna í heimahúsum er mikilvægt þjónustustig og stuðningur við börn og barnafjölskyldur. Dagforeldrar sinna börnum á viðkvæmu þroskastigi og því mjög mikilvægt fyrir foreldra að starfsemin sé traust og fagleg.
Dagskráin er svohljóðandi:
Ávarp bæjarstjóra
FJÖLSKYLDAN OG FYRIRTÆKIÐ verða ekki skilin að.
Viðurkenning til dagforeldra
Viðurkenningar til fjölskylduvænna fyrirtækja
Léttar veitingar
Dagskráin er öllum opin og er foreldrum velkomið að taka börnin með.
Barnagæsla á staðnum og félagar í Leikfélagi Keflavíkur heimsækja börnin, auk þess að sýna atriði úr nýrri revíu leikfélagsins sem er væntanleg á fjalir leikhússins.