Eftirlaunasjóður Reykjanesbæjar er meðal sjóða með ábyrgð launagreiðenda sem best standa

Eftirlaunasjóður Reykjanesbæjar er meðal sjóða með ábyrgð launagreiðenda sem best standa, samkvæmt gögnum sem unnin eru úr opinberri skýrslu Fjármálaeftirlitsins. 
 
Fjármögnun lífeyrissjóða með ábyrgð launagreiðenda er með öðrum hætti en almennra lífeyrissjóða og starfa þeir með sérstakri undanþáguheimild í lögum um lífeyrissjóði. Eignir á móti skuldbindingum eru því lægri hjá þessum sjóðum en gerist  hjá almennum sjóðum.
 
Meðal þeirra tólf sjóða sem falla í þennan flokk er Eftirlaunasjóður Reykjanesbæjar meðal þeirra sjóða sem best standa, eins og fram kemur í meðfylgjandi töflu sem unnin er úr skýrslu Fjármálaeftirlitsins sem öllum er aðgengileg á www.fme.is.
 
Eftirlaunasjóði Reykjanesbæjar var lokað fyrir inngöngu nýrra sjóðsfélaga árið 1998 og munu óverulegar skuldbindingar bætast við það sem þegar er orðið.
 
Skuldbindingar Reykjanesbæjar vegna lífeyrissjóðsins eru að fullu taldar fram í ársreikningi bæjarins, og er því fjármögnun lífeyrisgreiðslna ekki viðbót við skuldir bæjarins heldur hefur að fullu verið tekið tillit til þeirra skuldbindinga.