Ellert Eiríksson fánahyllar. Ljósmynd: VF
17. júní hátíðarhöldin í Reykjanesbæ fóru fram með hefðbundnum hætti í skrúðgarðinum í Keflavík á 70 ára afmæli lýðveldisins í gær. Meira að segja veðurguðirnir lögðu sig fram við að halda í heiðri hinu dæmigerða þjóðhátíðarveðri, ekki ósvipuðu því og var á Þingvöllum við stofnun lýðveldisins fyrir 70 árum.
Að lokinni þjóðbúningamessu í Keflavíkurkirkju og skrúðgöngu í fylgd skáta og lúðrasveitar Tónlistarskóla Reykjanesbæjar dró Ellert Eiríksson, fyrrum bæjarstjóri í Keflavík og svo Reykjanesbæ, íslenska fánann að húni, en fáninn mun vera sá stærsti á Íslandi. Karlakór Keflavíkur flutti að því loknu þjóðsönginn og nýstúdentinn og dúx Fjölbrautaskóla Suðurnesja, Sandra Lind Þrastardóttir flutti ávarp í hlutverki fjallkonunnar. Ræðu dagsins flutti Björk Guðjónsdóttir, verkefnisstjóri og fyrrum bæjarfulltrúi og alþingismaður, og fjallaði hún m.a. um þá breytingar og þróun sem átt hafa sér stað frá því sveitarfélögin þrjú Keflavík, Njarðvík og Hafnir sameinuðust undir merkjum Reykjanesbæjar og þá styrkleika sem hún telur felast í því að sameina kraftana um verkefnin. Að ræðu Bjarkar lokinni tók við skemmtidagskrá á sviði með söng, leik, dansi og tónlist.
Í gærkvöldi sá ungmennaráð Reykjanesbæjar um skemmtidagskrá í hinum glæsilega ungmennagarði, þar sem hægt var að taka þátt í alls kyns þrautum og fleiru skemmtilegu.
Enginn er verri þótt hann vökni segir máltækið en þrátt fyrir sól í hjarta og sól í sinni, verður að viðurkennast að allt verður einhvern veginn betra í góðu veðri – en þetta var nú einu sinni 17. júní, svo allt getur jú gerst!