Sigrún Ásta Jónsdóttir forstöðumaður Byggðasafns Reykjanesbæjar við eitt verka á sýningunni eftir Einar Fal Ingólfsson undir yfirskriftinni „safnverðir".
Einar Falur Ingólfsson veitir leiðsögn um ljósmyndasýninguna Spegilsýnir laugardaginn 13. mars kl. 14:00 í Listasafni Reykjanesbæjar, Duushúsum. Listamennirnir Bára Kristinsdóttir , Einar Falur Ingólfsson, Jónatan Grétarsson, Katrín Elvarsdóttir, Spessi og Þórdís Erla Ágústsdóttir eiga verk á sýningunni og sýningarstjóri er Aðalsteinn Ingólfsson.
John Szarkowski, yfirmaður ljósmyndadeildar Nútímalistasafnsins í New York (M.O.M.A) og helsti sérfræðingur í bandarískri ljósmyndun setti fram athyglisverða kenningu um ljósmyndun árið 1978 þar sem hann skipti ljósmyndurum í tvo flokka, þá sem litu á ljósmyndun sem tæki til tjáningar á einkalegum viðhorfum, sem sagt speglamenn, og þá sem litu á hana sem tæki til hlutlausrar frásagnar af hinu séða, þ.e. gluggamenn. Sýningin í Listasafni Reykjanesbæjar er tilraun til að ögra nokkrum valinkunnum ljósmyndurum, fá þá til að takast sérstaklega á við spegilhugmyndina sem hér er nefnd.
Leiðsögnin er liður í Safnahelgi á Suðurnesjum sem stendur þessa helgi.