Ekkert barn í 7. bekk grunnskólanna í Reykjanesbæ hefur tekið þátt í að stríða eða meiða einn krakka né taka þátt í að skilja útundan. Þetta sýnir rannsókn meðal nemenda í 5. 6. og 7. bekkjum grunnskólanna í Reykjanesbæ sem framkvæmd var af Rannsóknum og greiningu í febrúar sl. 449 börn tóku þátt eða 73% af heildarfjölda nemenda. Sérfræðingar fyrirtækisins kynntu niðurstöður rannsóknarinnar nýverið fyrir Samtakahópnum, þverfaglegum forvarnarhópi á vegum Reykjanesbæjar og munu þær kynntar foreldrum að loknu sumarleyfi.
Frá árinu 1992 hefur Mennta- og menningarmálaráðuneytið stuðlað að því að gerðar hafa verið faglegar, samanburðarhæfar rannsóknir á högum, líðan og aðstæðum barna og ungmenna hér á landi undir heitinu Ungt fólk. Það er talið hverri þjóð mikilvægt að eiga slíkar langtímarannsóknir um líðan, viðhorf og aðstæður barna og ungmenna á hverjum tíma og hefur Ísland verið í fararbroddi þróunar á rannsóknum af þessu tagi mörg undanfarin ár. Æskulýðsrannsóknirnar Ungt fólk eru gerðar meðal nemenda í 5. til 10. bekk í öllum grunnskólum og í öllum árgöngum framhaldsskóla landsins með reglulegu millibili. Þær þykja einstæðar á heimsvísu m.a. sökum þess að þær ná til allra ungmenna í landinu.
Margt annað áhugavert má finna í niðurstöðuskýrslunni eins og það að mikil aukning hefur orðið á þátttöku drengja í 7. bekk grunnskóla Reykjanesbæjar sem æfa íþróttir fjórum sinnum eða oftar í viku með íþróttafélagi. Þátttakan hefur aukist úr 27% í 61%. Þá má teljast ánægjulegt að nemendur í 6. bekk telja að það sé ekki erfitt að fá umhyggju og hlýju frá foreldrum sínum og þeim líður almennt vel heima hjá sér. Samband við foreldra og fjölskyldur hefur aukist að sama skapi og þessi hópur fær einnig meira hrós frá kennurunum sínum en fyrri kannanir sýndu. Samtals 89% drengja og 96% stúlkna í 5. – 7. bekk segjast aldrei hafa strítt sl. vetur einhverjum af því að viðkomandi sé útlendingur eða fæddist í útlöndum.
Rannsóknin sýnir einnig að ýmsar hættur geta leynst á netinu og lenda nemendur í 6. bekk oftast í stríðni og fá ljót skilaboð gegnum samfélagsmiðla. 5,6% stúlkna í 7. bekk setjast hafa fengið ljót skilaboð á netinu, t.d. á Facebook og Ask.Fm og hefur Samtakahópurinn með Hafþór Birgisson tómstundafulltrúa í fararbroddi varað við samfélagsmiðli eins og Ask.Fm, sem er spjallvefur.
Í lokin má geta þess að stórt hlutfall barna í 5. – 7. bekkjum grunnskólanna segjast eyða hálfri til einni klukkustund í yndislestur á dag.