Í fréttum RUV fimmtudagskvöldið 4. feb. sl. var frétt um fjárhagsáætlanir sveitarfélaga. Þar var m.a. sagt að afkoma A-hluta Reykjanesbæjar myndi versna um rúmar 500 milljónir á árinu 2015. Þá var verið að bera saman upphaflega fjárhagsáætlun 2014, sem gerði ráð fyrir 26 milljón króna rekstrarafgangi af A-hluta starfsemi, við nýsamþykkta fjárhagsáætlun 2015, sem gerir ráð fyrir 514 milljóna króna rekstrarhalla af A-hluta starfsemi.
Þetta er ekki allskostar rétt því frá því að upphaflega áætlun 2014 var lögð fram hefur hún verið endurskoðuð, í formi svokallaðrar útgönguspár, sem gerir ráð fyrir 864 milljón króna halla (ekki 26 milljóna króna afgangi) A-hluta bæjarsjóðs árið 2014. Hvort að það verður svo nákvæmlega niðurstaðan vitum við ekki fyrr en endurskoðaður ársreikningur 2014 liggur fyrir í apríl eða maí.
Að vissu leyti er það rétt að ef upphaflegar áætlanir A-hluta starfseminnar 2014 og 2015 eru bornar saman fer afkoman versnandi á milli ára sem nemur rúmum 500 milljónum. Ef hins vegar eru bornar saman nýrri tölur fyrir 2014 (útgönguspáin) og áætlun 2015 má sjá að stefnt er að því að hagur Reykjanesbæjar verði um 300 milljónum betri á árinu 2015 en 2014.
Það má auðvitað velta þessu á alla enda og kanta og bera saman á ýmsa vegu. Hvernig sem það er gert munu réttustu tölurnar alltaf verða þær sem birtast í endurskoðuðum ársreikningum hverju sinni.
Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri