Ungmennaráð Reykjanesbæjar fundaði með bæjarstjórn þann 16.nóvember sl.
Þriðjudaginn 16.nóvember fór fram fyrsti fundur ungmennaráðs Reykjanesbæjar á þessu starfsári. Fundurinn var haldinn hátíðlegri en áður því ungmennaráðið fagnaði 10 ára afmæli 1.nóvember síðastliðinn en ráðið var stofnað þann dag árið 2011.
Fundurinn hófst formlega þegar Guðbrandur Einarsson forseti bæjarstjórnar setti fundinn og Ólafur Bergur Ólafsson umsjónarmaður Ungmennaráðs ávarpaði fundargesti stuttlega. Hann fór yfir næstu verkefni ráðsins í vetur og óskaði Reykjanesbæ til hamingju með 10 ára afmæli ráðsins. Betsý Ásta Stefánsdóttir formaður Ungmennaráðsins veitti Hafþóri Barða Birgissonar íþrótta og tómstundafulltrúa Reykjanesbæjar viðurkenningu frá Ungmennaráðinu fyrir sín störf með ráðið en hann var einn af þeim sem stofnaði ráðið 2011 og hefur starfað sem umsjónarmaður ráðsins í áratug með mjög góðum árangri.
Níu fulltrúar ungmennaráðsins voru á mælendaskrá þennan fund og sjá mátti greinilega að ungmennin hafi undirbúið sig vel fyrir fundinn og voru ræður þeirra alveg til fyrirmyndar og mjög hnitmiðaðar.
Fulltrúar ungmennaráðs sem tóku til máls voru þau: Jón Garðar Arnarsson, Ragnheiður Anna Jónsdóttir, Natalia S Björnsdóttir, Ísabella Auður N Matthíasdóttir, Hermann Borgar Jakobsson, Nadía Líf Pálsdóttir, Sesselja Ósk Magnúsdóttir, Jón Logi Víðisson og Betsý Ásta Stefánsdóttir
Málefni ræðanna voru eins misjöfn og þær voru margar en rauði þráðurinn í nánast öllum ræðunum var slæm andleg heilsa ungmenna, aðstöðuleysi unglinga í Reykjanesbæ og skortur á samráði við ungmenni við ákvörðunartöku bæjarstjórnar í málum sem snerta ungmenni í Reykjanesbæ og var þá nefnt sérstaklega strætókerfið í Reykjanesbæ og umhverfismál.
Skynja mátti talsvert meiri ólgu meðal ungmennaráðsins en vanalega og voru sumar ræðurnar ansi kröftugar og þá sérstaklega þegar Sesselja Ósk Stefánsdóttir formaður nemendaráðs Myllubakkaskóla tók til máls og ræddi núverandi stöðu nemenda í Myllubakkaskóla og gagnrýndi harðlega upplýsingaflæðið til nemenda í skólanum í ljósi ástandsins sem komið er upp þar.
Alls tóku sex bæjarfulltrúar til máls og var mikið talað um hversu flottar og vel fluttar ræðurnar voru hjá fulltrúum ungmennaráðs. Ljóst er að bæjarstjórn getur tekið helling til sín og bætt úr ýmsum hlutum eins og að koma upp meira samráði almennt í stjórnsýslu Reykjanesbæjar.
Baldur Guðmundsson bæjarfulltrúi tók til máls og sagði eftirminnilega “Ég hef verið hérna sem bæjarfulltrúi sennilega lengst ásamt Guðbrandi og setið alla fundi ungmennaráðs með bæjarstjórn og ræðurnar hafa verið mjög misjafnar, misjöfn málefni en þau hafa sjaldan verið beittari en núna og hér fóru menn á himinskautum og vitnuðu í barnasáttmálann og heimsmarkmiðin. Það var eitthvert árið hérna sem ég sagði við ráðið sem var mjög kurteist og talaði um hvað bæjarstjórnin var frábær og talaði um hvað það væri margt gott og vel gert í bæjarfélaginu og ég sagði að þið mættuð alveg vera hvassari og segja hlutina eins og þeir blasa við ykkur og láta í ykkur heyra og ég get bara sagt eftir þennan fund BÆNG”
Fundi var slitið með formlegu ávarpi frá Kjartani Má Kjartanssyni bæjarstjóra Reykjanesbæjar.