Menningarhús Reykjanesbæjar
Menning í þágu bæjarbúa
Ekki þarf að fjölyrða um þá erfiðu stöðu sem nú blasir við íbúum Reykjanesbæjar þar sem atvinnuleysi í kjölfar Covid 19 hefur komið hvað harðast niður. Í slíku landslagi reynir á alla inniviði samfélagsins og allir verða að leggja hönd á plóg til að vinna gegn þeim áhrifum sem slíkt getur haft á líf og sál fólks.
Súlan - verkefnastofa vill leggja sitt af mörkum í þeirri viðleitni og hvetur íbúa til að halda uppi eins mikilli virkni og nokkur kostur er á. Liður í því verkefni er að bjóða upp á ókeypis aðgang til áramóta í öll söfn Reykjanesbæjar en þau eru Byggðasafn og Listasafn Reykjanesbæjar með aðsetur í Duus Safnahúsum og Rokksafn Íslands í Hljómahöll. Þá stendur atvinnulausum til boða ókeypis lánþegaskírteini í Bókasafni Reykjanesbæjar.
Á næstu vikum verður einnig boðið upp á fjölbreytta viðburðadagskrá hjá menningarstofnunum bæjarins þar sem fólk getur sótt sér símenntun, fræðslu, námskeið, leiðsagnir, farið í skipulagðar gönguferðir og margt fleira eða einfaldlega mætt á staðina og notið þess að dvelja þar.
Í nóvember verður í fyrsta skipti gefið út sameiginlegt rafrænt fréttabréf með yfirliti yfir þá viðburði sem boðið verður upp á í haust og kemur það út mánaðarlega. Hægt verður að skrá sig á póstlista til að fá viðburðadagatalið sent. Við hjá Súlunni - verkefnastofu hvetjum bæjarbúa til þess fylgjast vel með dagskránni og nýta sér það sem boðið verður upp á í menningarlífinu.