Arnar Fells og Erlingur Jónsson.
Erlingskvöld í ár verður tileinkað alþýðumenningu og gildi persónulegra heimilda í sagnfræði. Við ætlum að skoða hversdagslíf alþýðufólks skrifað af því sjálfu, í formi dagbóka, bréfaskrifta og annarra einkaskjala. Dagskráin fer fram í Bíósal Duushúsa fimmtudaginn 21. mars og hefst kl. 20:00.
Arnþór Gunnarsson, sagnfræðingur og verkefnisstjóri Miðstöðvar munnlegrar sögu, heldur erindi um notkun og gildi persónulegra heimilda í sagnfræði.
Sigrún Ásta Jónsdóttir sagnfræðingur og safnastjóri Byggðasafns Reykjanesbæjar segir frá Mörtu Valgerði Jónsdóttur, sem skráði niður heimildir um Suðurnesjafólk og mannlífið á svæðinu. Lesin verða brot úr minningarþáttum Mörtu Valgerðar.
Söngkonan Jana María Guðmundsdóttir syngur íslensk alþýðulög.
Listaverk Erlings Jónssonar Stjáni blái verður kynnt, en keflvíski sjómaðurinn Kristján Sveinsson fékk viðurnefnið Stjáni blái og ljóðskáldið Örn Arnarson gerði ódauðlegan í samnefndu ljóði.
Aðgangur er ókeypis og allir velkomnir. Dagskráin er styrkt af Menningarráði Suðurnesja og er hluti af dagskrárröð almenningsbókasafnanna á Suðurnesjum, Kynning á menningararfinum.