Horft yfir Dalshverfi í Reykjanesbæ í átt að Ytri Njarðvíkurhverfi.
Bæjarráð Reykjanesbæjar ákvað á fundi sínum í morgun að lækka fasteignaskatt á íbúðarhúsnæði (A-skatt) úr 0,48% af fasteignarmati í 0,46%. Ástæða lækkunarinnar er mikil hækkun fasteignamats á svæðinu, sem myndar álagningarstofninn og þar af leiðandi mikil krónutöluhækkun fasteignaskatts íbúðareigenda.
Bæjarráð ákvað einnig að lækka fráveitugjald úr 0,17% af fasteignarmati í 0,15% íbúðarhúsnæðis (A-skatt) og úr 0,36% í 0,35% af atvinnuhúsnæði (C-skatt) af sömu ástæðu.
Endurálagningin kemur til framkvæmda í mars og gildir fyrir allt árið.
Samtals lækka tekjur Reykjanesbæjar um 66 milljónir árið 2018 vegna þessa og verða um 1550 milljónir. Það er í samræmi við gildandi fjárhags- og aðlögunaráætlun sveitarfélagsins.