Ferðavenjur í Reykjanesbæ - Samantekt
Ferðavenjukönnun er framkvæmd af Gallup þriðja hvert ár og hefur verið haldin með hléum síðan 2002 fyrir íbúa á höfuðborgarsvæðinu en árin 2019 og 2022 náði könnunin einnig til annarra landshluta, þ. á m. Suðurnesja og þá Reykjanesbæjar.
Könnunin fer fram í október og nóvember og hver svarandi skráir ferðir sínar í nokkra daga auk þess sem viðkomandi svarar spurningum varðandi ferðavenjur sínar almennt. Í úrtaki eru handahófsvaldir einstaklingar í Þjóðskrá á aldrinum 6-80 ára. Í töflu 1 má sjá yfirlit yfir fjölda í úrtaki á Suðurnesjum, fjölda svarenda á Suðurnesjum auk fjölda svarenda búsettir í Reykjanesbæ.
Tafla 1 - Fjöldi í úrtaki, fjöldi svarenda könnunarinnar og fjöldi svarenda búsettir í Reykjanesbæ.
|
2019 |
2022 |
Í úrtaki á Suðurnesjum |
993 |
1060 |
Fjöldi svarenda |
410 |
354 |
Þar af búsettir í Reykjanesbæ |
264 |
226
|
Á undanförnum árum hafa samgönguvenjur breyst hratt á Íslandi, bæði hvað varðar fjölda ferða á degi hverjum og hvaða samgöngumáti verður fyrir valinu. Reykjanesbær er engin undantekning þar á, en samanburður á ferðavenjukönnunum áranna 2019 annars vegar og 2022 hins vegar sýnir meðal annars að meðalfjöldi ferða á dag minnkaði úr 3,6 ferðum árið 2019 í 3,0 ferðir 2022 og hlutdeild vistvænna samgangna jókst úr 15% í 22%. Þróunin er í takt við markmið í umhverfis- og loftslagsstefnu Reykjanesbæjar (2021) um samgöngur, en þar segir meðal annars: „Í Reykjanesbæ verða fjölbreyttir og vistvænir samgöngumátar efldir og gerðir eftirskóknarverðir með því að bæta og fjölga göngu- og hjólreiðastígum í umferðarkerfinu [...]“.
Árið 2022 voru 80% ferða íbúa Reykjanesbæjar farnar á einkabíl (57% sem bílstjóri og 23% sem farþegi), sem er töluverð lækkun frá árinu 2019 þegar hlutfallið var 85%; 71% sem bílstjóri og 14% sem farþegi. Þá hefur orðið marktækt stökk í hlutdeild ferða á tveimur jafnfljótum (úr 11% í 15%) og hlutdeild ferða í strætó ríflega tvöfaldast, úr 2% í 5%. Hlutur hjólandi er enn lítill en tvöfaldast þó, úr 1% í 2%. Sjá yfirlit á mynd 1.
Mynd 1 - Skipting ferðamáta skv. ferðavenjukönnunum árin 2019 og 2022.
Daglegum ferðum fækkar milli ára, þ.e. íbúar í Reykjanesbæ sækja færri áfangastaði á degi hverjum. Þetta dregur óhjákvæmilega úr umferð auk þess sem einfaldari ferðamynstur hafa í för með sér aukin tækifæri til að auka hlutdeild vistvænna samgöngumáta.
Þrátt fyrir hraðar breytingar í átt að vistvænni samgönguvenjum er notkun á einkabíl meiri í Reykjanesbæ en á landsvísu (75%) og ljóst að hlutdeild vistvænna samgangna má aukast enn frekar. Könnunin leiðir meðal annars í ljós að 90% íbúa Reykjanesbæjar taka strætó sjaldan eða aldrei, en á landsvísu er hlutfallið 76%. Aðspurð hvað þurfi til að auka notkun þeirra á fararmátanum, svara 34% aukin tíðni ferða og 22% lægra verð og aukinn áreiðanleika kerfisins.
Þrátt fyrir lágt hlutfall hjólandi og að 40% svarenda á ekki reiðhjól minnkar hlutfall þeirra sem kveðast aldrei hjóla úr 45% árið 2019 í 42% árið 2022. Aðspurð hvað þurfi til að þau hjóli oftar segjast 29% vilja betri hjólastíga, 19% betri vetrarþjónustu og 20% lægra verð á hjólum.