Eva Kristín Dal safnstjóri Byggðasafnsins og Sólveig Þórðardóttir ljósmyndari
Þann 17. júní undirrituðu Sólveig Þórðardóttir, ljósmyndari, og safnstjóri Byggðasafns Reykjanesbæjar samningu um varðveislu filmusafns ljósmyndastofunnar Nýmyndar.
Sólveig rak ljósmyndastofuna frá 1982-2022 svo um er að ræða myndir sem spanna 40 ára tímabil. Myndirnar eru úr hátt í 10.000 tökum og má leiða líkur á að fjöldi mynda sé um 300.000 talsins. Byggðasafn Reykjanesbæjar þakkar Sólveigu fyrir þessa rausnarlegu gjöf. Myndirnar eru mikilvæg heimild um liðna tíð sem safninu er ljúft og skylt að taka við til varðveislu.
Við sama tilefni var opnuð ný ljósmyndasýning í Bryggjuhúsi Duus safnahúsa sem ber heitið Ásjóna: Íbúar bæjarins í gegnum tíðina. Þar eru sýndar myndir af íbúum svæðisins sem hafa borist safninu í upprunalegum römmum. Elstu myndirnar eru líklega um 140 ára gamlar en þær yngstu teknar fyrir 20 árum. Myndir sem fá þann sess að vera settar í ramma og hafðar til sýnis hafa yfirleitt ákveðið gildi í augum eigandans. Þær sýna gjarnan ástvini sem eru fjarri eða eru teknar við tímamót í lífinu. Væntumþykja, stolt eða söknuður eru meðal þeirra tilfinninga sem eru tjáð með þessum hætti.
Sýningin er opin alla daga frá kl. 12-17. Verið öll velkomin.