Fimmtánda Ljósanóttin verður haldin í Reykjanesbæ dagana 4.-7. september. Ljósanótt er menningar- og fjölskylduhátíð sem hefur skapað sér sérstöðu meðal bæjarhátíða fyrir áherslu á menningartengda viðburði og uppákomur sem eru aðalsmerki hennar.
Tónlistin skipar jafnan stóran sess í Bítlabænum. Boðið verður upp á glæsilega tónleikadagskrá þar sem fram koma m.a. hljómsveitin Valdimar, Hjaltalín, Björgvin Halldórsson, Pollapönk, Bjartmar og Bergrisarnir, Klassart, Stebbi og Eyfi og AmabAdamA. Fjórði hluti Hátíðartónleikanna, Með blik í auga, sem slegið hafa rækilega í gegn, verður frumsýndur undir yfirskriftinni Keflavík og Kanaútvarpið, Eliza Newman verður með tónleika og þannig mætti áfram telja.
Veislan hefst á fimmtudegi, sem skipar æ stærri sess í hátíðinni, með einstakri setningarathöfn með þátttöku allra grunnskólabarna og elstu barna leikskólans sem saman sleppa litríkum blöðrum til himins og syngja inn Ljósanóttina. Fimmtudagskvöldið er orðið mikið stemningskvöld með opnun sýninga í Duushúsum, menningar- og listamiðstöð Reykjanesbæjar, og svo upp alla Hafnargötuna með skemmtilegum viðburðum og flottum tilboðum í verslunum.
Yfir helgina taka við fjölbreyttar uppákomur og viðburðir, kjötsúpa, bryggjuball, árgangaganga, sölutjöld, leiktæki, skessulummur og allt sem prýðir góða hátíð en sýningar og viðburðir íbúanna sjálfra mynda eftir sem áður rauða þráðinn í hátíðinni.
Nánari upplýsingar um dagskrána í heild sinni og einstaka viðburði er að finna á vef Ljósanætur, ljosanott.is. Þar skrá þátttakendur sjálfir inn viðburði sína og þannig tekur dagskráin smám saman á sig mynd. Til að eiga möguleika á að birta viðburði í prentaðri dagskrá, þarf að skrá viðburð á vefinn í síðasta lagi sunnudaginn 24. ágúst. Á vefnum er einnig að finna hagnýtar upplýsingar varðandi sölu á Ljósanótt, tjaldstæði o.fl.
Velkomin í Ljósanótt!