Reykjanesbær á fallegum vetrardegi. Ljósmynd: Garðar Ólafsson
Fjárhagsáætlun Reykjanesbæjar var afgreidd að lokinni síðari umræðu á bæjarstjórnarfundi fyrr í kvöld. Undanfarin misseri hefur verið unnið að endurskipulagningu fjármála Reykjanesbæjar og hefur sveitarfélagið m.a. átt í viðræðum við helstu kröfuhafa sína með það að markmiði að endurskipuleggja efnahagsreikning samstæðu A og B hluta sveitarfélagsins. Viðræður hafa nú skilað árangri með að skilmálar samkomulags liggja fyrir við lánveitendur Eignarhaldsfélagsins Fasteignar, sem nú er alfarið í eigu Reykjanesbæjar, en viðræðum við kröfuhafa Reykjaneshafnar er ólokið. Má segja að með þessu sé Reykjanesbær að rétta úr kútnum og bæjaryfirvöld horfi fram á bjartari tíma þótt áfram verði nauðsynlegt að gæta aðhalds í rekstri og útgjöldum.
Skilmálar samkomulags við kröfuhafa Fasteignar gerir ráð fyrir skuldbreytingum, skilmálabreytingum og sölu eigna. Ekki er gert ráð fyrir afskriftum eða niðurfellingum skulda. Með samkomulaginu er greint á milli eigna sem nýttar eru til lögbundinnar grunnþjónustu sveitarfélagsins og annarra eigna, en dregið er verulega úr leiguskuldbindingum sveitarfélagsins vegna þeirra eigna. Samkomulagið er háð endanlegri undirritun aðila sem og skilyrðum af beggja hálfu sem unnið verður að því að útfæra og uppfylla á næstunni ásamt því að ljúka viðræðum við aðra hagsmunaaðila og kröfuhafa sveitarfélagsins og samstæðu þess. Einnig er sveitarfélaginu gert kleift að huga að uppbyggingu nauðsynlegra innviða s.s. nýs grunnskóla í Dalshverfi og fjölgun leikskólaplássa.
Samhliða þessu er ætlunin að færa Fasteignir Reykjanesbæjar, sem heldur m.a. utan um félagslegt húsnæði, yfir í húsnæðissjálfseignarstofnun eins og heimild er fyrir í nýjum lögum um almennar íbúðir og mun það létta talsvert á skuldabyrði sveitarfélagsins.
Þessar aðgerðir, ásamt ýmsum öðrum, munu gera Reykjanesbæ kleift að uppfylla fjárhagsleg skilyrði sveitarstjórnarlaga og miðað við núverandi forsendur er ekki lengur þörf á að sveitarfélagið óski eftir skipun sérstakrar fjárhaldsstjórnar á vegum innanríkisráðuneytisins eins og útlit var fyrir um tíma. Áfram verður þó þörf á ströngu aðhaldi í fjármálum sveitarfélagsins.
Nánari upplýsingar veitir
Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri.
s. 8252727
kjartan.m.kjartansson@reykjanesbaer.is
Fjárhagsáætlun Reykjanesbæjar 2017-2020 samþykkt í bæjarstjórn 20. desember 2016.