Reykjanesbær á fallegum sumardegi. Ljósmynd: OZZO
Fjögur áhugaverð störf eru nú í auglýsingu hjá Reykjanesbæ. Það eru aðstoðarmaður bæjarstjóra, forstöðumaður Súlunnar, fjármálastjóri og lýðheilsufræðingur. Frestur til að sækja um er til 8. júlí og sótt er um á vef Reykjanesbæjar undir Laus störf. Þar eru einnig nánari upplýsingar um auglýst störf.
Með því að smella hér ferðu á Ráðningarvef Reykjanesbæjar
Starf aðstoðarmanns bæjarstjóra felur í sér að aðstoða bæjarstjóra við dagleg verkefni. Þar er m.a. átt við undirbúning funda og viðburða sem bæjarstjóri kemur að eða stendur fyrir. Einnig að koma erindum sem bæjarstjóra berast í réttan farveg.
Súlan er ný skrifstofa þar sem ýmsir málaflokkar heyra undir. Má þar nefna atvinnumál, ferðamál, menningarmál, safnamál, markaðs- og kynningarmál. Starf forstöðumanns felur í sér ábyrgð á stjórnun, stefnumótun og þjónustu þeirra stofnana sem heyra undir Súluna.
Fjármálastjóri stýrir fjármálaskrifstofu Reykjanesbæjar, styður bæjarráð við framlagningu, samþykkt og framkvæmd fjárhagsáætlunar. Þá sér fjármálastjóri um gerð og kynningu viðauka við fjárhagsáætlun og leiðri umbætur og styrkingu á umgjörð fjármála Reykjanesbæjar.
Lýðheilsufræðingur mun sinna verkefnum á sviði forvarna og lýðheilsumála hjá Reykjanesbæ. Einnig mun lýðheilsufræðingur vinna að uppbyggingu heilsueflandi samfélags í samræmi við lýðheilsustefnu.