Fischershús, Bíósalurinn, Bryggjuhúsið og Gamla búð hafa verið friðlýst af forsætisráðherra samkvæmt tillögu Minjastofnunar Íslands. Friðlýsingin nær í öllum tilvikum til ytra byrðis húsanna en einnig þeirra innviða sem eru upprunalegir. „Þetta er mikið fagnaðarefni og viðurkenning til bæjaryfirvalda fyrir að hafa látið sig varða þessi gömlu hús. Það er mikil bæjarprýði af þessum húsum og virði þeirra á bara eftir að aukast eftir því sem tímarnir líða,“ segir Valgerður Guðmundsdóttir menningarfulltrúi Reykjanesbæjar.
Í lögum um menningarminjar nr 80/2012 er kveðið á um að öll hús og mannvirki sem eru eldri en 100 ára skulu vera friðuð. Minjastofnun áætlar að um 2500 hús og mannvirki sé að ræða. Aðeins örfá þeirra eru á Reykjanesi og því er það mikill heiður fyrir Reykjanesbæ að eiga fjögur hús í þeim flokki. Reykjanesbær hefur unnið jafnt og þétt að viðgerð Duushúsanna og lauk þeirri vinnu árið 2014.
Fischershús var byggt árið 1881, sama ár og Alþingishúsið og nær friðlýsingin til ytra borðs hússins, upprunalegra innviða, búðarinnréttinga og leifa hlaðinna steinveggja á lóðinni. Fishershús var fyrsta tvílyfta timburhúsið í Keflavík og kom allt timbrið í það tilsniðið og merkt frá Danmörku. Að sögn Minjastofnunar er varðveislugildi hússins talið mjög mikið m.a. vegna þess hve byggingin er heilstæð, vel útfærð og heildarform hennar hefur haldist óbreytt. Nú er unnið að endurbótum hússins í samstarfi við Minjastofnun sem styrkt hefur framkvæmdirnar.
Bryggjuhúsið lét Hans Peter Duus kaupmaður byggja árið 1877 sem pakkhús. Friðlýsing þess nær til ytra borðs hússins, upprunalegra innviða þess, lyftuhjóls og tengds búnaðar sem og steinhleðslna á lóð sjávarmegin við húsið. Húsið er tvílyft bindingshús með risþaki og lá gangur þvert í gegnum húsið í framhaldi af bryggjunni neðan hússins. Er það eitt örfárra húsa þeirra gerðar hér á landi sem hefur varðveist.
Bíósalurinn var einnig byggður fyrir Hans Peter Duus árið 1890 og var það lengst af notað við fiskverkun. Húsið var innréttað til kvikmyndasýninga árið 1927 og var það notað sem slíkt í 2-3 ár, fyrst sinnar tegundar á Íslandi. Húsið er einlyft bindingshús með mænisþaki og sambyggt Bryggjuhúsi. Húsið var endurbyggt árið 2006 í samstarfi við húsfriðunarnefnd og nefnt Bíósalur.
Gamla búð, sem stendur gengt Bryggjuhúsi, var einnig hluti af eignum Hans Peter Duus, sem lét byggja það árið 1870. Það er stakstætt bindingshús, kjallari, hæð og portbyggt ris. Húsið hefur haldist að mestu óbreytt frá fyrstu tíð, en það skemmdist í eldsvoða á 7. Áratug 20. Aldar. Unnið er að endurbótum og viðbyggingu í samstarfi við Minjastofnun, sem styrkt hefur framkvæmdirnar.