Aðalheiður Hanna Björnsdóttir fékk styrk úr Skólaþróunarsjóði Manngildissjóðs árið 2013 til að ljúka við gerð námsspils í náttúrufræði sem hún kallar „Frá toppi til táar.“ Spilið var lokaverkefni hennar til B.Ed.-prófs en hún hefur nú selt útgáfuréttinn til Námsgagnastofnunar. Aðalheiður Hanna hefur starfað við grunnskóla í Reykjanesbæ og nýlega færði hún öllum sex skólunum eintak af spilinu. Gylfi Jón Gylfason, fræðslustjóri, þakkaði henni þessa höfðinglegu gjöf.
Spilið er byggt á kennslufræðilegum áherslum og gildum námsefnis í líffræði á miðstigi og áherslum í Aðalnámskrá grunnskóla/Greinasvið 2013. Spilinu er ætlað að vekja áhuga og auka þekkingu á námsefninu, ásamt því að stuðla að fjölbreyttum kennsluaðferðum í náttúrufræði.