Nemendur á leið í námsferð.
Nemendur í Reykjanesbæ, Garði og Sandgerði stóðu sig afar vel á samræmdum prófum, en meðaltalsárangur nemenda í þessum bæjarfélögum er sá besti frá upphafi.
Reykjanesbær er nú kominn vel yfir landsmeðaltal stærðfræði í 4. og 7. bekk og í íslensku í 4. bekk.
Framfarir eru einnig í íslensku í 7. bekk. Meðaltal Reykjaness er nú yfir landsmeðaltali í stærðfræði í 4. og 7. bekk í fyrsta skipti frá upphafi og er við meðaltal í íslensku í 4. bekk.
Gylfi Jón Gylfason fræðslustjóri Reykjanesbæjar er að vonum afar ánægður með árangurinn og segir að margir samverkandi þættir útskýri góðan árangur nemenda á svæðinu. Greinilegt er að kennarar eru að skila afbragðs vinnu. Þeir stýra samstarfinu við foreldra og hvetja nemendur til dáða þannig að þeir eru áhugasamir og hafa metnað til náms. Gott samstarf er milli skólanna og samræmd aðferðafræði og góður stuðningur frá sérfræðiþjónustu skóla. Auk þess skipti stefnumótun einnig máli. Börn koma einnig betur undirbúin undir grunnskólagöngu en áður.
Við viljum búa börnum okkar örugga framtíð með afbragðskennslu sem gefur þeim tækifæri til að sækja sér góða menntun að loknu grunnskólanámi. Það markmið er nú að nást segir Gylfi Jón að lokum.