Kampakátir verðlaunahafar. Bryndís Brynjólfsdóttir, önnur frá vinstri, með gull fyrir boðhlaup. Ljósmyndir VF
Það má með sanni segja að íslensku keppendurnir á Alþjóðaleikum Special Olympics ´15 hafi staðið sig vel en þeir unnu til fjölda verðlauna.
Þessi myndarlegi hópur hefur verið úti í Los Angeles, þar sem leikarnir voru haldnir í ár, síðan 21. júlí síðastliðinn og koma heim á morgun þriðjudag. Af 41 keppendum Íslendinga að þá koma 10 úr röðum Íþróttafélagsins NESS á Suðurnesjum.
Okkar fólk keppti í mörgum greinum. Í golfinu voru systkinin Bjarki Guðnason og Heiða Guðnadóttir. Þau enduðu í þriðja sæti en þau kepptu í efstu deild, unified. Ísland keppti einnig í frjálsum íþróttum og náði hópurinn þar að vinna gull í 4x100m boðhlaupi. Bryndís Brynjólfsdóttir, úr Nes var ein þeirra, en hún lenti einnig í 4.sæti í kúluvarpi. Vilhjálmur Jónsson úr Nesi hreppti gull í einmenning í boccia og náði svo 2. sætinu í tvímenning. Glæsilegur árangur þar. Í sundhóp Íslendingana var ung stúlka úr Nesi, Ástrós María Bjarnadóttir. Hún lenti í 5. og 6.sæti fyrir 400m skrið og 100m skrið en lenti svo í 2.sæti fyrir 100m bringu og síðan í 1.sæti með hópnum sínum í 4x50m skrið. Í því boðsundi tók Ástrós ótrúlegan lokasprett sem skilaði þeim gullverðlaunum á leikunum. Frábær árangur hjá henni og hópnum í sundinu.
Fótboltahópur Íslendinga stóð sig einnig ótrúlega vel á leikunum. Liðið vann nokkra leiki og komst í úrslit. Lokaniðurstaðan var sú að Ísland lenti í 4.sæti sem er flottur árangur. Nes-arnir í þessum flotta fótboltahópi eru: Jósef Daníelsson, Ragnar Ólafsson, Jakob Gunnar Bergsson, Konráð Ólafur Eysteinsson og Sigurður Guðmundsson.
„En fyrir utan flottan árangur hjá Íslendingunum í greinunum sínum, sem þau öll mega vera mikið stolt af, þá var þetta mikið upplifelsi og reynsla sem þau fengu. Þjálfarar þeirra og fararstjórar nutu þess einnig að sjá einstaklingana blómstra þarna úti og allir nutu sín á eigin verðleikum. Þetta voru einstakir leikar og mikið ævintýri sem mun örugglega lifa lengi í minningu allra þeirra sem tóku þar þátt. Innilega til hamingju kæra íþróttafólk við Suðurnesjamenn getum svo sannarlega verið stolt af ykkur,“ segir Katrín Ruth Þorgeirsdóttir varaformaður Nes í frétt frá félaginu.