Fræðsluerindi um kvíða barna og ungmenna

Mynd af vefnum kvíði.is
Mynd af vefnum kvíði.is

Foreldrar og forráðamenn nemenda í 10. bekkjum grunnskólanna í Reykjanesbæ, Garði og Sandgerði eru hvattir til að fjölmenna í Íþróttaakademíuna fimmtudaginn 4. maí kl. 17:00 til að hlýða á fræðsluerindi um kvíða barna og ungmenna. Fræðslan verður einnig í boði fyrir nemendurna því vikuna 2. - 5. maí munu sálfræðingar frá skólaþjónustu Reykjanesbæjar heimsækja 10. bekkinga  og halda fræðsluerindi í kennslustund. 

Kvíði barna  og ungmenna hefur aukist  og mikið hefur verið fjallað um þá staðreynd að undanförnu. Kvíðaeinkenni hafa m.a. verið tengd við mikla notkun samfélagsmiðla og raftækja eins og snjallsíma og spjaldtölva. 

Í fræðsluerindum skólaþjónustu Reykjanesbæjar verður áhersla lögð á umfjöllun um kvíðaviðbragð, tilgang kvíðaeinkenna, hvenær kvíði getur verið hjálplegur og hvenær hann verður óhjálplegur. Einnig verður fjallað um mögulegar leiðir til þess að takast á við kvíða með árangursríkum hætti. Stuðningur foreldra skiptir öllu máli þegar börn og unglingar læra að takast á við kvíða eða ótta með árangursríkum hætti. Þeir eru því hvattir til að nýta þetta tækifæri.