Það er friðsamlegt að gróðursetja tré í sameiningu.
Þá mun alþjóðlegur hópur hlaupara bera logandi friðarkyndil á milli byggða og gefur öllum landsmönnum tækifæri á að taka þátt og hafa að leiðarljósi hugsjónir sáttar og samlyndis. Sérstök áhersla er lögð á þátttöku barna og ungmenna, sem er skipulögð í samstarfi við íþrótta- og ungmennahreyfingar.
Friðarhlaupið, eða Sri Chinmoy Oneness-Home Peace Run, eins og það nefnist á ensku, er alþjóðlegt kyndilboðhlaup sem fer fram í öllum heimsálfum ár hvert. Hlaupið er kennt við indverska friðarfrömuðinn Sri Chinmoy (1931-2007) sem m.a. opnaði íslenska Friðarhlaupið árið 1989.
Þátttaka Íslands
Ísland hefur tekið þátt í Friðarhlaupinu frá upphafi þess árið 1987 og í ár verður hlaupið í 20. sinn.
Á þessum tímamótum er ætlunin að hafa hlaupið veglegra en nokkru sinni fyrr og heimsækja öll 74 sveitarfélög á Íslandi.
Verkefnið „leggjum rækt við frið“ fer fram samhliða Friðarhlaupinu, en það gengur út á að sveitarfélög gróðursetji tré sem er tileinkað friði. Friðartrén minna okkur á að rétt eins og við þurfum að hlúa að og leggja rækt við trjáplöntuna svo hún megi vaxa og dafna, þurfum við að hlúa að og leggja rækt við friðinn í sjálfum okkur og samfélaginu, svo hann megi vaxa og dafna.
Hlaupið í Reykjanesbæ
Föstudaginn 21. júní kemur hópurinn til Reykjanesbæjar og hleypur frá Íþróttahúsinu í Njarðvík klukkan 10:30 ásamt hópi ungmenna frá Reykjanesbæ og hlaupa þau saman upp á túnið ofan við Holtaskóla. Þar verður gróðursett friðartré klukkan 11:00, eftir athöfn hlaupa þeir svo áfram og stefna á sveitafélagið Garð. Allir sem hafa tök á eru hvattir til að hlaupa með hvort heldur sem er alla leið eða hluta af leiðinni.