Bæjaryfirvöld í Reykjanesbæ fengu í gær heimsókn frá fulltrúum nefndar Evrópuráðsins sem fer með málefni tengd sjálfstæði sveitarfélaga gagnvart ríki. Nefnd þessi fer til landa Evrópusambandsins og til EES-ríkjanna á nokkurra ára millibili og velur úr nokkur sveitarfélög í hverju landi og gerir úttekt á sjálfstæði þeirra gagnvart ríki. Í þessari sömu ferð verða Reykjavík, Dalvíkurbyggð og Garðabær heimsótt.
Svo skemmtilega vildi til að landsleikur Íslands og Austurríkis fór fram meðan fundur stóð yfir og fengu fundarmenn leikinn beint í æð af Tjarnargötutorgi yfir í fundarherbergið í Ráðhúsi. Þegar fundinum lauk var seinni hálfleikur hafinn og því tilvalið að bjóða fundarmönnum út á torg til að fylgjast með því sem eftir var af seinni hálfleiknum. Skömmu síðar kom Arnór Ingvi Traustason inn á og þá voru fulltrúar Evrópuráðsins að sjálfsögðu upplýstir um að þetta væri okkar maður og þá trú okkar að hann myndi klára leikinn. Það gekk eftir og samglöddust þau innilega með okkur.
Á meðfylgjandi mynd eru, auk Kjartans Más Kjartanssonar, bæjarstjóra, þeir Jakob Wienen, formaður nefndarinnar, en hann er borgarstjóri Katwijk í Hollandi, og Zdenek Broz, borgarstjóri Sempurk í Tékklandi.