Neyðarstjórn Reykjanesbæjar hefur, þegar þetta er ritað, haldið 48 fundi frá því að hún var sett á laggirnar í byrjun mars 2020. Fundargerðir Neyðarstjórnar eru aðgengilegar hér og vil ég hvetja fólk til að kynna sér þær.
Neyðarstjórn Reykjanesbæjar hefur því hlutverki að gegna að samhæfa aðgerðir og grípa til ráðstafana ef neyðarástand skapast. Þá þarf að forgangsraða lögbundinni þjónustu, samfélagslega mikilvægri starfsemi, tryggja almannaheill og lágmarka hugsanlegan samfélagslegan skaða. Síðastliðna mánuði hafa verkefni neyðarstjórnar fyrst og fremst falist í eftirfylgni ákvarðana og reglugerða sem heilbrigðisyfirráðherra setur að höfðu samráði við almannavarnadeild Ríkislögreglustjóra, sóttvarnalækni og landlækni, gagnvart starfsemi og stofnunum Reykjanesbæjar. Aðgerðastjórn Almannavarna Suðurnesja, undir stjórn lögreglustjóra, sér svo um að aðrir hlutar samfélagsins þ.e. almenningur, fyrirtæki og stofnanir virði og fari eftir gildandi reglum hverju sinni.
Neyðarstjórn Reykjanesbæjar hefur tamið sér að fara ítarlega eftir fyrirmælum þríeykisins og eru upplýsingar um margþættar aðgerðir og ákvarðanir innan einstakra sviða og stofnanna að finna hér
Síðasti fundur Neyðarstjórnar, þann 7. október síðastliðinn, var haldinn í kjölfar útgáfu nýrrar reglugerðar heilbrigðisráðherra þar sem settar voru sérstakar reglur fyrir höfuðborgarsvæðið. Reglurnar gengu lengra þar en annars staðar á landinu og áttu því ekki við um Suðurnesin. Í aðdraganda fundarins mátti í fyrsta skipti heyra raddir sem töldu nauðsynlegt að gengið yrði lengra í Reykjanesbæ en reglugerð ráðherra mælti fyrir um s.s. að gera hlé á íþróttaæfingum, loka sundlaugum o.s.frv. Eftir góðar umræður í Neyðarstjórninni var hins vegar ákveðið að gera það ekki, treysta Þríeykinu og fylgja fyrirmælum heilbrigðisráðherra eins og áður.
Í framhaldi af því vill Neyðarstjórn Reykjanesbæjar samt sem áður hvetja einstaklinga, fyrirtæki og stofnanir á Suðurnesjum að fara í einu og öllu að þeim reglum og fyrirmælum sem í gildi eru. Persónulegar sóttvarnir skipta þar mestu máli, virða fjöldatakmarkanir, draga úr óþarfa samskiptum við annað fólk, nota fjarfundabúnað eins og hægt er og virða samfélagssáttmálann sem í gildi er.
Við erum öll almannavarnir.
Kær kveðja,
Kjartan Már Kjartansson,
bæjarstjóri Reykjanesbæjar, formaður Neyðarstjórnar og Almannavarnanefndar Suðurnesja (utan Grindavíkur).