Mikil umræða hefur átt sér stað um hröðun orkuskiptanna í samgöngum og höfum við séð hleðsluinnviði byggjast hratt upp víða um landið. Því miður hefur uppbygging þessara innviða ekki verið eins hröð hér á svæðinu en Reykjanesbær hefur lagt mikla vinnu í að liðka fyrir þeirri uppbyggingu. Ein aðgerðin var að ráðast í þarfagreiningu og kortlagningu á því hvar væru fýsilegir staðir til uppsetningar á hleðslustöðvum sem þjóna myndu íbúum Reykjanesbæjar fyrir hleðslu á rafbílum sínum.
Óhætt er að segja að ákveðnum áfanga hafi verið náð þegar verkefnið var boðið út í ágúst síðastliðnum. Í kjölfar útboðsins var svo undirritaður samningur við Orku Náttúrunnar um uppsetningu á hverfahleðslum (22kW stöðvum) víðs vegar um sveitarfélagið.
Til stóð að opna fyrstu stöðvarnar í lok síðasta árs en frosthörkur og snjóþyngsli gerðu okkur erfitt fyrir og því töfðust framkvæmdir. Í dag opnuðu fyrstu stöðvarnar og eru þær staðsettar við Ráðhúsið. Á næstunni munu svo bætast við fleiri stöðvar og verða þær staðsettar við Keili, Stapaskóla og Vatnaveröld (staðsetningarnar má sjá merktar með grænum punktum á meðfylgjandi korti). Vonir standa til að veðurskilyrði verði okkur hagstæð þannig að hægt verði að halda áfram með fleiri staðsetningar og opna fleiri stöðvar áður en langt um líður. Bæjarbúar mega því eiga von á því að sjá fleiri stöðvar bætast við jafnt og þétt á næstu mánuðum.
Á kortinu sem fylgir hér með má sjá gróflega áætlaðar þær staðsetningar sem verið er að horfa til að koma fyrir hleðslustöðvum en þær gætu þó átt eftir að breytast eitthvað. Við val á staðsetningum hleðslustöðvanna var horft til þess að þær væru dreifðar um sveitarfélagið, skilyrði fyrir afhendingu á raforku væru góð og að þær væru aðgengilegar fyrir bæjarbúa.
Við fögnum þessu skrefi sem styður okkur enn frekar í áttina að orkuskiptum í samgöngum og vonum að þessari uppbyggingu á hleðsluinnviðum verði vel tekið af bæjarbúum.
Orka Náttúrunnar mun alfarið sjá um reksturinn á hleðslustöðvunum og bendum við bæjarbúum á að snúa sér til þeirra fyrir nánari upplýsingar. Á vefsíðu þeirra er að finna ítarlegar upplýsingar bæði um hverfahleðslur sem og ýmsa fræðslu um hleðslur og rafbíla.