Lagt af stað í skrúðgöngu í tilefni af 50 ára afmæli leikskólans Gimli
Leikskólinn Gimli var stofnaður af Kvenfélagi Njarðvíkur haustið 1971 undir forystu Guðlaugar Karvelsdóttur sem jafnframt var formaður félagsins. Guðríður Helgadóttir fyrrverandi leikskólafulltrúi Reykjanesbæjar var fyrsta leikskólastýra skólans og er Gimli næst elsti leikskólinn í Reykjanesbæ.
Bæjarfélagið tók við rekstrinum af Kvenfélagi Njarðvíkur en um tíma var leikskólinn í einkarekstri. Síðan tók bæjarfélagið aftur við rekstrinum, byggt var við leikskólann sumarið 1996 og viðbyggingin formlega tekin í notkun í september sama ár. Laus kennslustofa var sett við leikskólann haustið 2006 og er skólinn nú 4 kjarna/deilda leikskóli.
Þann 30. desember árið 2004 gerði Karen Valdimarsdóttir þjónustusamning við Reykjanesbæ og stofnaði fyrirtækið Karen ehf. og er sá samningur enn í gildi. Frá árinu 1999 hefur leikskólinn starfað eftir hugmyndafræði Hjallastefnunnar og er Karen ehf. með fagsamning við Hjallastefnuna ehf. sem veitir Gimli aðgang að allri þeirri þjónustu sem Hjallastefnan hefur upp á að bjóða.
Hugmyndafræði Hjallastefnunnar er skýr og byggir hún á einföldu og jákvæðu starfsumhverfi sem einkennist af vináttu, kærleika, virðingu og gleði. Öll börn eiga skilið það besta og það er í höndum okkar fullorðnu að skapa börnum uppbyggilegt og nærandi umhverfi.
Menntandi vinnuumhverfi fyrir bæði starfsfólk og börn, virk foreldraþátttaka og vingjarnlegt andrúmsloft eru þeir þættir í starfinu okkar sem við erum hvað stoltust af og skilar þeim árangri sem við sækjumst eftir - ánægðum börnum - ánægðum foreldrum - ánægðu starfsfólki.
Þess má geta að samvinna á milli leikskólans og foreldra barna á Gimli hefur í gegnum tíðina verið einstaklega góð og gefandi.