Það var mikið um dýrðir í Reykjanesbæ á dögunum þegar sveitarfélagið hélt upp á 30 ára afmælið sitt. Fjöldi viðburða var á dagskrá sem má gera ráð fyrir að hafa fallið vel í kramið hjá íbúum í ljósi þess hve vel þeir voru sóttir af ungum sem öldnum.
Afmælishátíðin hófst á afmælisdaginn sjálfan 11. júní með kökuboðum, hátíðarfundi bæjarstjórnar, frumsýningu á afmælismyndbandi og stórtónleikum á þaki Hljómahallar en deginum hefur þegar verið gerð góð skil á vef Reykjanesbæjar í máli og myndum.
Fram til 17. júní tók svo við hver viðburðurinn á fætur öðrum.
Fullt var út úr húsi í Fimleikaakademíunni þegar Fimleikadeild Keflavíkur bauð yngri kynslóðinni og foreldrum þeirra að koma saman og hreyfa sig. Gestum var boðið upp á holla hressingu og Íþróttaálfurinn og Solla Stirða skemmtu viðstöddum og tóku myndir með kátum börnum.
Umhverfissvið Reykjanesbæjar stóð fyrir gróðursetningu á afmælislundi við Kamb í Innri Njarðvík. Fulltrúar árgangs 1994, sem fagna 30 ára afmæli í ár eins og Reykjanesbær tóku þátt í gróðursetningunni en gróðursett voru 30 tré.
Söguganga var í Höfnum þar sem Ármann Guðmundsson fornleifafræðingur leiddi gesti um minjasvæðið í Höfnum þar sem skáli frá 9. öld fannst. Í kjölfar göngunnar hélt Elíza Newman og hljómsveit tónleika þar sem á dagskrá voru lög tengd Höfnum og Reykjanesbæ í bland við lög Elízu.
Opnun sumarsýninga var í listasafninu þar sem opnaðar voru tvær sýningar. Sýning á verkum Erlings Jónssonar úr einkasafni fjölskyldu hans ásamt ljósmyndum af listamanninum sem eru í eigu safnsins. Seinni sýningin ber heitið „Inn í ljósið“ og samanstendur af verkum í eigu safnsins. Sýningarnar verða opnar fram til 18. ágúst.
Sýning á vegum Byggðasafnsins var einnig opnuð í Bíósal Duus húsa, „Rís þú, Íslands unga merki“. Á sýningunni má sjá stærsta íslenska fána landsins sem var fyrst flaggað á lýðveldishátíðinni á Þingvöllum 1944 og síðan í Skrúðgarðinum í Keflavík frá 1945-1973. Sýningin verður opin fram til 18. ágúst.
Laugardaginn 15. júní sá Keflavík íþrótta- og ungmennafélag fyrir litahlaupi fyrir alla fjölskylduna í blíðskaparveðri. Hlaupið var 1,5 km og fengu þátttakendur yfir sig alla regnbogans liti í hlaupinu ásamt góðri vatnsbunu frá slökkviliðsbíl sem var við rásmarkið.
Afmælisvikunni lauk með hátíðarhöldunum á 17. júní. Mikill fjöldi íbúa mætti í Skrúðgarðinn og tók þátt í fjölbreyttri dagskrá sem meðal annars skartaði, Jóa P og Króla, Afmæliskór, Drottningunni sem kunni allt, BMX brós, Bjartmari og Bergrisunum, atriði úr Matthildi frá Danskompaní og alls kyns skemmtistöðvum auk hefðbundinnar formlegrar dagskráar. Ekki var að sjá annað en að allir skemmtu sér vel og fögnuðu allt í senn þjóðhátíðardegi Íslendinga, 80 ára lýðveldisafmæli og 30 ára afmæli Reykjanesbæjar.
Að auki var þrautabrautin í Vatnaveröld opin 15. og 16. júní og var frítt í sund, söfn og strætó alla afmælisvikuna. Þá var Betri bær einnig með lengri opnun og alls kyns tilboð á fimmtudeginum.
Reykjanesbær þakkar öllum íbúum fyrir þátttökuna í afmælisdagskránni.