„Þetta er gleðidagur fyrir kylfinga á Suðurnesjum,“ sagði Jóhann Páll Kristbjörnsson formaður Golfklúbbs Suðurnesja þegar Reykjanesbær, Golfklúbburinn og Púttklúbbur Suðurnesja undirrituðu samning um innanhússaðstöðu fyrir klúbbana í Íþróttaakademíunni. Klúbbarnir verða þar í góðu nágrannasamband við Fimleikadeild Keflavíkur.
Golfklúbbur Suðurnesja hefur aldrei haft inniaðstöðu sem hefur verið nokkuð hamlandi fyrir starfsemina, að sögn Jóhanns Páls. Golfara hafi þurft að fara á höfuðborgarsvæðið til þess að geta æft yfir veturinn en nú sé það úr sögunni. „Golfið er á uppleið á Suðurnesjum, fjöldi virkra klúbbfélaga er í sögulegu hámarki, alls 540 og fjölgaði um 12% frá því í fyrra.“
Púttklúbbur Suðurnesja hafði aðstöðu í HF, en það var rifið fyrr á þessu ári. Hafsteinn Guðnason formaður klúbbsins þakkaði fyrir aðstöðuna og sagðist vona til að samskiptin í húsinu yrði sem best. Klúbbmeðlimum hafi allsstaðar liðið vel, bæði í Röstinni, þar sem fyrsta aðstaða klúbbsins var og í HF og hann átti von á því að eins yrði í Akademíunni.
Samninginn undirrituðu Lovísa Hafsteinsdóttir formaður íþrótta- og tómstundaráðs Reykjanesbæjar, Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri Reykjanesbæjar, Hafsteinn Guðnason formaður Púttklúbbs Suðurnesja og Jóhann Páll Kristbjörnsson formaður Golfklúbbs Suðurnesja.