Frá setningu verkefnisins Göngum í skólann í gærmorgun.
Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands ásamt samstarfsaðilum setti Göngum í skólann í 10. sinn í gær. Í þetta sinn fór setningarhátíðin fram í Akurskóla í Reykjanesbæ. Eftir ávörp og tónlistaratriði var verkefnið svo sett með viðeigandi hætti þegar aðstandendur verkefnisins, nemendur, starfsfólk og gestir settu Göngum í skólann með því að ganga lítinn hring í nærumhverfi skólans. Skráning skóla fer mjög vel af stað og enn geta skólar bæst í hópinn. Einfalt er að fara inn á vef verkefnisins www.gongumiskolann.is og skrá sig til leiks. Þar er líka að finna hugmyndir að framkvæmd og skipulagi Göngum í skólann fyrir skólana.
Meginmarkmið Göngum í skólann eru að hvetja nemendur og foreldra til að ganga, hjóla eða nota annan virkan ferðamáta til og frá skóla. Um leið er ætlunin að: Hvetja til aukinnar hreyfingar með því að auka færni barna til að ganga á öruggan hátt í skólann og fræða þau um ávinning reglulegrar hreyfingar. Kenna reglur um öryggi á göngu og á hjóli. Draga úr umferð við skóla: Draga úr umferðarþunga, mengun og hraðakstri nálægt skólum. Betra og hreinna loft ásamt öruggari og friðsælli götum og hverfi. Stuðla að vitundarvakningu um ferðamáta og umhverfismál: Hversu „gönguvænt“ umhverfið er og hvar úrbóta er þörf. Samfélagsvitund eykst. Hvetja til heilbrigðs lífsstíls fyrir alla fjölskylduna: Hreyfing vinnur gegn hjartasjúkdómum, offitu og sykursýki II og stuðlar að streitulosun, betri sjálfsmynd, o.fl.
Á alþjóðavísu er Göngum í skólann mánuðurinn í október og Alþjóðlegi Göngum í skólann dagurinn er 5. október. Vegna birtu og veðuraðstæðna fer Göngum í skólann verkefnið fram hér á Íslandi í septembermánuði og því lýkur á Alþjóðlega Göngum í skólann deginum þann 5. október n.k.
Setning í Akurskóla
Sigurbjörg Róbertsdóttir, skólastjóri Akurskóla byrjaði á því að bjóða nemendur og gesti velkomna á setningarathöfnina í gær. Nemendur sungu skólasönginn fyrir gesti. Sigríður Inga Viggósdóttir, sviðsstjóri Almenningsíþróttasviðs ávarpaði nemendur og hvatti þá til þess að ganga eða nýta sér virkan ferðamáta og huga að umferðaröryggi.
Jóhanna Ruth sem vann Ísland got talent söng tvö lög fyrir gesti. Að lokum tók Þórólfur Árnason til máls og hvatti nemendur til þess að taka þátt í verkefninu og sýna varkárni í umferðinni. Þórólfur stóðst svo ekki mátið og skellti í víkingaklappið fræga áður en hann setti verkefnið fyrir hönd samstarfsaðila verkefnisins.
Þeir aðilar sem að verkefninu standa hérlendis eru Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands, mennta- og menningarmálaráðuneytið, Embætti landlæknis, Ríkislögreglustjóri, Slysavarnafélagið Landsbjörg, Samgöngustofa og Landssamtökin Heimili og skóli.
Nánari upplýsingar um verkefnið gefur Hrönn Guðmundsdóttir verkefnastjóri Almenningsíþróttasviðs hjá Íþrótta- og Ólympíusambandi Íslands með tölvupósti hronn@isi.is eða í síma 514 4024. Heimasíða verkefnisins er www.gongumiskolann.is.