Gunnar Marel með súluna, ásamt Björk Þorsteinsdóttur formanni menningarráðs og Árna Sigfússyni bæjarstjóra.
Súlan, menningarverðlaun Reykjanesbæjar árið 2010, var afhent í Listasal Duushúsa í gær á degi íslenskrar tungu.
Veitt voru tvenn verðlaun; önnur til eintaklings og hin til fyrirækis. Verðlaunagripurinn er hannaður og smíðaður af keflvísku listakonunni Elísabetu Ásberg.
Gunnar Marel Eggertsson hlaut Súluna í ár fyrir smíðina á víkingaskipinu Íslendingi, siglinguna til Ameríku og þátttöku sína við uppbyggingu Víkingaheima í Reykjanesbæ.
Víkingaskipið Íslendingur var smíðað á árunum 1994 til 1996 og er eftirgerð Gaukstaðaskipsins sem fannst í Noregi árið 1882. Gunnar Marel sá alfarið um smíðina og árið 2000 stýrði hann síðan skipi sínu vestur um haf, í kjölfar Leifs Eiríkssonar. Segja má að þessi skip hafi verið þotur víkingatímans þar sem þau gátu farið mjög hratt yfir. Dæmi eru um að menn hafi aðeins notað 3-4 daga á leiðinni milli Íslands og Noregs. Þetta hefur síðan sannast í þeim leiðöngrum sem Íslendingur hefur farið. Lagt var af stað frá Reykjavík á þjóðhátíðardegi okkar Íslendinga 17. júní árið 2000 og komið til New York 5. október sama ár. Komið var við í 25 höfnum en vegalengdin sem Íslendingur sigldi í þessari ferð var um 4200 mílur. Í hverri höfn sem Íslendingur kom var mikið um að vera. Fjöldi manns tók á móti skipinu þar voru líka þjóðhöfðingjar og annað fyrirfólk og talið er að um 350.000 manns hafi komið um borð í Íslending í þeim höfnum sem heimsóttar voru. Níu árum eftir að Gunnar sigldi af stað í frægðarför sína, þann 17. júní árið 2009, var opnuð sýning um skipið og sögu þess í glæsilegri nýbyggingu; Víkingaheimum. Þar geta gestir skoðaða skipið og einnig hluta af frægri víkingasýningu Smithsonian stofnunarinnar í Bandaríkjunum sem var einmitt opnuð árið 2000 til að minnast landafunda Leifs Eiríkssonar. Gunnar Marel tók virkan þátt í uppbyggingu Víkingaheima og fyrir þá vinnu, smíði skipsins og siglinguna sjálfa, vill Reykjanesbær þakka honum með Súlunni í ár.
Veitingastaðurinn Paddy''s hlaut fyrirækjasúluna í ár fyrir eflingu tónlistarlífs í Reykjanesbæ með því að skapa ungu tónlistarfólki tækifæri til flutnings tónlistar. Frá stofnun Paddy''s hafa eigendur staðarins lagt áherslu á lifandi tónlist og þeir ásamt ýmsum ráðgjöfum hafa skipulagt tónleika og aðra menningarviðburði. Þetta hefur verið unnið af hugsjón, áhuga og ástríðu til listarinnar og oftast í sjálfboðavinnu.