Frá sýningu um Gunnlaug Scheving.
Sunnudaginn 1. febrúar kl. 15 verður Björg Erlingsdóttir, sýningarstjóri, með leiðsögn um sýninguna Til sjávar og sveita sem opnuð var um liðna helgi í Listasafni Reykjanesbæjar í Duushúsum.
Sýningin er samstarfsverkefni Listasafns Íslands, Menningarmiðstöðvar Hornafjarðar og Listasafns Árnesinga. Þar eru tekin fyrir verk Gunnlaugs, sem er einn af helstu listamönnum þjóðarinnar, og endurspegla þau vel þá breytingu sem varð í íslenskri myndlist á millistríðsárunum. Gunnlaugur tilheyrir þeirri kynslóð listamanna sem komu fram í lok fjórða áratugarins. Þjóðernisátök og efnahagskreppa beindu listamönnum inn á nýjar brautir þar sem landslagið var ekki lengur aðalviðfangsefnið heldur nánasta umhverfi og daglegt líf.
Í Listasafni Íslands er varðveitt mikið safn verka Gunnlaugs Scheving og verkin á sýningunni koma öll úr safneign safnsins. Á sýningunni eru nokkur af risastórum verkum Gunnlaugs en einnig minni verk, frumdrög og skissur sem gefa gestum tækifæri á að kynnast myndhugsun listamannsins og vinnuferli.
Gestum er gefinn kostur á leik og fræðslu með verkefnum til þess að glíma við og hafa gaman af um leið og töfrar Gunnlaugs Scheving birtast okkur í myndum hans, stórum og smáum. Sýningin stendur til 8. mars. Safnið er opið virka daga kl. 12.00 – 17.00, helgar kl. 13.00 – 17.00. Ókeypis aðgangur.